141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:06]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var sannarlega tvískipt ræða hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur og erfitt að fara í andsvar við hana, maður veit ekki hvorn helminginn maður á að taka.

Nú þegar hún kýs að hætta á miðri starfsævi og yfirgefa þennan starfsvettvang er ljóst að hennar verður saknað hér í salnum úr þessari pontu sem hún gerði að umtalsefni, úr nefndastörfum og ekki síst sem fulltrúi Alþingis á erlendri grundu. Siv hafði verið hér í þinginu í tólf ár þegar ég var kosin hingað fyrst. Við höfum sannarlega verið góðir samherjar á mörgum sviðum, en harðir andstæðingar á öðrum.

Við höfum verið samherjar í því máli sem hér er á dagskrá, þ.e. ný stjórnarskrá fyrir lýðveldið með aðkomu þjóðarinnar, með kosningu stjórnlagaþings síðar stjórnlagaráðs og með því að setja tillögur stjórnlagaráðs út til þjóðarinnar eins og hv. þingmaður rakti ágætlega í ræðu sinni; og rakti líka í reynd frumkvæði og afstöðu Framsóknarflokksins í gegnum tíðina til þessa verklags. Einhvers staðar skildi leiðir með Framsóknarflokknum og ferlinu.

Nú er því miður svo komið að helstu forustumenn Framsóknarflokksins sem hér tala tala bæði gegn stjórnlagaþingi, stjórnlagaráði, þeirri afurð sem það lagði fram, þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór, gera lítið úr henni og kalla hana skoðanakönnun eða velja önnur slík heiti.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi skýringu á því hvar og hvenær Framsóknarflokkurinn varð viðskila við þessa stefnu sína.