141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:13]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ræðuna. Ég hef verið þeirrar skoðunar að setja þurfi auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána og hef verið þeirrar skoðunar lengi, hef ímyndað mér að stigsmunur væri á milli skoðana okkar hv. þingmanns. En við erum þó sammála um að það að breyta ákvæðinu ótt og títt núna á síðustu metrunum er algjörlega ótækt. Það eru vinnubrögð sem ég kann ekki við, sérstaklega í ljósi þess að eitt lítið orð getur breytt réttarframkvæmd sem hefur kannski verið þróuð hjá Hæstarétti síðustu áratugina. Við getum tekið sem dæmi hvaða vatnsréttindi njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Það stóð til að breyta því fyrir ekki svo löngu og hefði rýrt þann eignarrétt sem er nú verndaður af mannréttindasáttmála Evrópu og mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann nánar út í þær breytingar sem gerðar hafa verið, sem hann fór ágætlega yfir áðan. Og kannski um leið hvar hann mundi vilja sjá lendinguna hvað varðar auðlindaákvæðið eða hvort það væri hans mat að tíminn sé runninn frá okkur og ekki sé hægt að ráðast í þær breytingar sem lagt er til að verði gerðar án þess að fara mjög ígrundað ofan í málið.