141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:20]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Við erum svo sem búnir að ræða þetta oft í hv. fjárlaganefnd á þessu kjörtímabili og erum sammála um mikilvægi þess að farið sé rétt með, eða hvernig maður á að orða það.

Það liggur fyrir, þar sem við vorum bara að afgreiða hér síðast í lokafjárlögunum í dag eftir 2. umr. og í umræðu sem var hér í fyrradag, að mjög margar ábendingar hafa komið sem snúa til dæmis að mörkuðum tekjustofnum þar sem sagt er að það gangi í raun og veru gegn fjárstjórnarvaldi Alþingis og sé svona, ja, hvað á ég að segja — hugsanlega á gráu svæði. Mér finnst hins vegar mikilvægt að við tökum umræðuna og höldum fókusnum meðan við getum það á því máli sem hér er undir, þ.e. frumvarpinu sem snýr að breytingarákvæðinu á 79. gr. stjórnarskrárinnar.

Það væri líka mjög athyglisvert ef ég og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson mundum koma með breytingartillögur við það frumvarp sem hér um ræðir, um breytingarákvæði stjórnarskrárinnar, og kæmum með fullt af breytingartillögum sem sneru að fjárstjórnarvaldi Alþingis. Hægt væri að færa mjög sterk rök fyrir þeim hugmyndum sem þar kæmu fram sem endurspegluðu í raun og veru þá vinnu sem farið hefur fram í hv. fjárlaganefnd á öllu þessu kjörtímabili og algjörlega þverpólitísk samstaða er um. Ég hafði nú ekki einu sinni hugmyndaflug í það.

Ég hef nálgast þetta verkefni alveg frá 1. umr. með það í huga: Hvernig getum við leyst úr þessari stöðu? Ég hef sagt að mér fyndist það virðingarvert af þeim hv. þingmönnum að flytja málið miðað við þá stöðu sem var uppi. Ég vil reyna að nálgast málið þannig og þess vegna fannst mér breytingartillagan frá þingflokksformönnunum algjörlega út í hött og í raun og veru koma í bakið á flutningsmönnunum, vegna þess að það er alveg skýrt hvert markmið frumvarpsins er. Bæði er hægt að lesa frumvarpið og það sem kom fram þegar (Forseti hringir.) mælt var fyrir því.