141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil segja það við hv. þingmann að ég hugsa að við værum nú komnir lengra ef við værum að semja um þessa hluti en þeir sem eru að gera það hér. Og þetta blasir við. Við höfum kallað eftir því allt þetta kjörtímabil að menn taki smærri kafla innan úr stjórnarskránni en ekki að fara í heildarendurskoðun. Við þekkjum þá umræðu í fjögur ár þar sem því hefur algjörlega verið hafnað. Það var í rauninni ekki neinn flötur á eðlilegum samskiptum á milli stjórnmálaflokkanna fyrr en þeir þrír hv. þingmenn sem hér um ræðir lögðu þessa tillögu fram og hjuggu á hnútinn, það er mín skoðun. Fyrr var enginn flötur á því að leysa málið.

Þess vegna segi ég við hv. þingmann í mikilli vinsemd: Það er ekki traustvekjandi þegar þingflokksformenn sömu flokka og lögðu fram tillöguna koma með svona arfavitlausa breytingartillögu inn í þetta mál. Þá er ég ekki að tala um efnisinnihald tillögunnar heldur bara að koma það til hugar að koma með hana, því að það var alveg fyrirséð hvað mundi gerast. Það sem mundi gerast yrði að við í stjórnarandstöðunni — bíðum við, það er auðvitað ekki sjálfgefið að stórir kaflar komi ekki inn í 3. umr. í breytingartillögum, það eru fyrstu viðbrögð. Þetta er bara heilbrigð skynsemi, þannig að þegar þingflokksformenn stjórnarflokkanna koma með svona vitlausa tillögu við málið sem gengur þvert gegn markmiðum frumvarpsins þá er ekki hægt að aðlaga hana út frá því.

Ég segi því við hv. þingmann: Ég hef talað þannig í mínum þingflokki og það er mikilvægt að hv. þingmaður tali líka með þeim hætti, sem ég efast ekki um að hann hafi gert í sínum þingflokki, og tryggi það að menn komi ekki fram með þessar tillögur því að þær eru vísasti vegurinn til að eyðileggja málið. Og ef það er tilgangur þessara hv. þingmanna að eyðileggja málið og telja það betra fyrir sig að fara í kosningabaráttuna með því að stúta því eða vera ósáttir við forustumennina, þá verða þeir að segja það, því að þetta er bara hráskinnaleikur.