141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:31]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Stundum hefur verið sagt að sagan geti verið strangur dómari. Ef við horfum til stjórnarskrár okkar, lýðveldisstjórnarskrárinnar, getum við velt því fyrir okkur hver dómur sögunnar er. Er það stjórnarskráin sem hefur reynst okkur illa á þessum áratugum? Eða er það eitthvað annað sem hefur átt þátt í því hvernig hlutirnir hafa gengið á hverjum tíma?

Ég held að menn verði að velta þessu fyrir sér þegar við skoðum það af hverju öll þessi þunga áhersla er lögð á þetta mál og hefur verið gert nánast allt þetta kjörtímabil. Það er ekki svo að stjórnarskráin hafi í grundvallaratriðum reynst okkur illa og við höfum gert á henni heilmiklar breytingar í gegnum árin. Við höfum bætt í hana nýjum köflum eins og gert var 1995 þegar segja má að mannréttindakaflinn hafi verið settur inn í stjórnarskrána, grundvallaður á alþjóðalögum sem við erum aðilar að. Alltaf hefur verið reynt að vinna þessi mál í mikilli sátt og það er mjög nauðsynleg nálgun, þegar við erum á annað borð að gera breytingar á grundvallarlöggjöf landsins, að reynt sé að vinna þá hluti í mikilli sátt, taka sér þann tíma sem til þarf.

Það er alveg rétt, sem komið hefur fram, að lagt hafi verið upp í þá vegferð að gera meiri breytingar á stjórnarskránni en menn ekki náð að ljúka þeirri vinnu einhverra hluta vegna. Það á sér allt saman skýringar. Á árunum fyrir 2007 hafði starfað stjórnarskrárnefnd sem var komin mjög langt í vinnu sinni og væri hægt að nýta þá vinnu heilmikið í vinnu við breytingu á stjórnarskránni núna. Þar var meðal annars mikið fjallað um auðlindaákvæðið.

Þegar lagt var upp í þá vegferð á þeim tíma voru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur við völd í landinu. Af þeirra hálfu var lögð mikil áhersla á að vinna málið í sátt og fá alla stjórnmálaflokka til að koma að þeirri vinnu auk sérfræðinga. Á þeim tíma var mikil viðkvæmni út af ákveðnum ákvæðum í stjórnarskrá, sérstaklega hlutverki forsetans og heimildum hans til að vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hafði komið upp í kjölfarið á fjölmiðlamálinu svokallaða.

Vegna þeirrar viðkvæmni gerði Samfylkingin á þeim tíma það að kröfu fyrir þátttöku sinni í þeirri vinnu að hún hefði neitunarvald, þ.e. að breytingartillögur sem menn vildu leggja til færu ekki í gegn, hún hefði neitunarvald til að stoppa þær. Á það var fallist. Þar getum við séð hvernig þáverandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, vildu nálgast þetta mál og hversu mikilvægt þeir töldu að um allar þær leiðir sem samstaða næðist um yrði sem víðtækust sátt. Við getum svo borið þetta saman við vinnubrögðin sem viðhöfð hafa verið á þinginu núna, í hvaða farveg málið hefur ratað.

Að mörgu leyti eru þau vinnubrögð óafsakanleg og alls ekki til eftirbreytni við þessa vinnu í framtíðinni. Ég vona að við eigum aldrei eftir að upplifa annan eins ágreining um breytingarferli á stjórnarskrá og við höfum þurft að upplifa á þessu kjörtímabili. Enda er sú staða sem við stöndum frammi fyrir núna í lok kjörtímabilsins býsna alvarleg.

Mikill grundvallarágreiningur er um allt ferlið, um allt vinnulag í kringum þessar breytingar, fyrir utan efnislegan ágreining um mörg atriði. Það er gagnrýnt hve málið hefur verið unnið hratt. Það er gagnrýnt hve lítið tillit er tekið til athugasemda sérfræðinga. Við höfum leitað til sérfræðinga erlendis. Endanleg skýrsla þeirra liggur ekki fyrir. Alvarlegar athugasemdir komu fram í drögum að skýrslu þeirra sem send voru þinginu. Einnig hefur fræðimannasamfélagið á Íslandi nánast óskipt gagnrýnt mjög alvarlega bæði málsmeðferðina og efnisleg atriði í þeim breytingartillögum sem gerðar voru á stjórnarskránni.

Niðurstaðan er sú, sem við stöndum frammi fyrir, því að, eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson kallaði það kannski réttilega, við erum með allt í skrúfunni í þessu mikilvæga máli. Við erum með allt í skrúfunni. Þá fara menn að grípa til þeirra ráða að reyna að losa þá flækju.

Í allan vetur, vil ég segja, þar til nokkru fyrir áramót, hafa menn bent á að ekki væri hægt að nálgast málið með þessum hætti, boðið hefði verið upp á það ítrekað af hálfu stjórnarandstöðunnar, þ.e. af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að menn mundu setjast yfir stærstu ágreiningsatriðin sem um ræðir, eða mikilvægustu atriðin sem menn hafa viljað nálgast í breytingum á stjórnarskrá, um auðlindirnar, um völd og valdmörk forsetaembættisins o.fl. Í allri þeirri umræðu, á meðan við í stjórnarandstöðuflokkunum tveimur höfum verið að ítreka þessi boð okkar, höfum við bent á að ekki næðist að ljúka málinu á þessu þingi. Stjórnarliðar og hæstv. ríkisstjórn hafa skellt skollaeyrum við málflutningi okkar og hæstv. forsætisráðherra hefur haldið því fram, vel fram í febrúar, eða þar til fyrir kannski mánuði eða innan við það, að staðið skyldi við heildarendurskoðun á stjórnarskránni á þessu kjörtímabili, henni skyldi ljúka.

Nú er komið fram yfir lok þessa þings samkvæmt starfsáætlun. Forustumenn flokkanna eru farnir að fara út og suður að hefja kosningabaráttu. Verið er að reyna að ná saman fundum í þinghúsinu meðal þeirra og formanna þingflokkanna. Allt gert á hlaupum. Á meðan höldum við áfram að ræða þetta hér í miklum ágreiningi.

Það hóflegasta sem um þetta verður sagt, virðulegi forseti, er að ríkisstjórnin hafi ekki kunnað sér hóf, hafi ætlað sér að fara allt of hratt. Maður veltir því fyrir sér af hverju svo hastarlega er farið fram í þessu máli sem raun ber vitni og ekki bara í þessu máli heldur í svo mörgum öðrum sem við höfum orðið vitni að. Við höfum orðið vitni að þessu í þeim stóru málum sem ríkisstjórnin einsetti sér að ljúka á kjörtímabilinu. Við getum nefnt sjávarútvegsmálin. Þrátt fyrir hástemmd loforð og mikla gagnrýni undanfarinna ára á fiskveiðistjórnarkerfið, hástemmd loforð um grundvallarbreytingar á því á þessu kjörtímabili, hefur ríkisstjórnin að fjórum árum liðnum, og reyndar rúmlega það, ekki náð að ljúka málinu.

Við getum nefnt mörg önnur mál, mál sem við höfum dæmi um, mál sem eru að koma hér fram á síðustu stundum á hverju þingi, alls ekki fullunnin, alls ekki þess búin að fara í afgreiðslu í þinginu, hafa hlotið mikla gagnrýni umsagnaraðila og oft dagað uppi eftir langar og strangar umræður. Þá kemur maður aftur að því að þau sem ráðið hafa ferð hafa bara ætlað sér of hratt, þau hafa ætlað sér svo mikið. Kannski er ástæða til að halda að fyrir fram hafi tíminn verið allt of skammur til að stíga þessi stóru skref, kannski voru þau orðin svo hungruð eftir langt svelti, ef við getum orðað það þannig, frá ríkisstjórnarborði.

Árangurinn í þessu öllu verður dæmdur af sögunni eins og ég kom inn á áðan og sagan getur verið strangur dómari. Ég held að hún verði það gagnvart þeim vinnubrögðum sem við höfum þurft að upplifa hér í svo mörgum málum. Sagan mun fara hörðum höndum um vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar í mörgum málum. Dómur sögunnar um þau vinnubrögð verður annar en dómur sögunnar yfir stjórnarskránni, þar verður svolítið öðruvísi um að litast.

Það er reginmisskilningur, sem sumir hv. þingmenn hafa haldið fram, að stjórnarskráin hafi átt einhvern þátt í því hruni sem hér varð, því efnahagslega áfalli sem þjóðin varð fyrir. Stjórnarskráin hafði ekkert með það að gera. Það eru einhverjir aðrir hvatar sem liggja að baki því að ryðjast í svo viðamiklar breytingar á svo skömmum tíma og í svo miklum ágreiningi sem raun ber vitni. Þá getum við horft á það hvort áherslurnar hafi verið réttar.

Þegar við horfum yfir farinn veg síðustu fjögur ár veltir maður því fyrir sér hvort hv. stjórnarliðar séu ánægðir með árangurinn, með niðurstöðuna, í þessum stóru málum sem þeir lögðu af stað með, ef horft er til samhengis við önnur mikilvæg mál sem ekki hafa náð fram að ganga og endurspeglast í dag í tiltölulega dapurri stöðu í samfélagi okkar. Staðan er döpur, því miður.

Ég heimsótti í gær fyrirtæki í mínu kjördæmi, stór og smá. Það var sama sagan alls staðar þar sem maður kom, menn eru ekki bjartsýnir. Menn hafa miklar áhyggjur. Stærri fyrirtækin, sem hafa til þess burði, eru að leita sér verkefna erlendis. Það er staðan. Það er uppskeran á þessu kjörtímabili sem stendur upp úr. Atvinnuleysi er enn of mikið, fjöldi fólks hefur flutt úr landi og hagvöxtur er lægri en nokkrar spár í upphafi kjörtímabilsins gerðu ráð fyrir, miklu lægri. Fjárfesting í íslensku atvinnulífi er í algjöru lágmarki. Og við körpum um það hér hvort við eigum að gera grundvallarbreytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Það er eitt af aðalmálunum. Höldum atvinnugreinum í uppnámi og heimilum landsins þar með í spennitreyju. Sköpum ekki þau tækifæri sem ætti að vera vettvangur Alþingis og menn hefðu átt að geta sameinast um eftir það áfall sem hér varð, það efnahagslega áfall.

Ég held að menn geti ekki verið ánægðir, ef þeir líta í baksýnisspegilinn, með þennan árangur. Þetta endurspeglast í því vantrausti sem ekki bara ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir standa frammi fyrir nú í lok kjörtímabilsins gagnvart almenningi, heldur bara Alþingi yfir höfuð. Þetta á stærstan þátt í því hve vantraust á Alþingi er orðið mikið. Það er sorglegt, virðulegi forseti, að það skuli vera staðan.

Það hlýtur að verða markmið okkar allra, sem setjumst hér á þing að afloknum næstu kosningum, að endurtaka ekki þennan leik, láta þetta tímabil okkur að kenningu verða, bæði hvað varðar vinnubrögðin á þingi og þær áherslur sem við veljum til að afgreiða mál héðan.

Með Morgunblaðinu í dag var dreift blaði sem heitir Sóknarfæri, frumkvæði og fagmennska í íslensku atvinnulífi. Þar talar meðal annars forstjóri stærstu verkfræðistofu okkar, Eyjólfur Árni Rafnsson, forstjóri Mannvits. Hann kallar eftir meiri stöðugleika og stefnu til lengri tíma. Þetta er fyrirtæki sem hefur haslað sér völl á erlendum vettvangi líka eins og þau fyrirtæki sem hafa til þess burði eru að gera vegna þess að þau treysta því ekki að ástandið muni endilega lagast hér á næstu tveimur til þremur árum. Menn verða að horfa til útlanda til að ná sér í þann stöðugleika sem rekstur þeirra þarf.

Hann gagnrýnir þau átakaefni sem einkennt hafa störf okkar. Hann segir hér, með leyfi forseta:

„Ég vil sjá meiri hvatningu til fjárfestinga hér á landi, orðvarari umræðu og langtímahugsun í stjórnmálum. Erlendir fjárfestar hafa greinilega áhyggjur af pólitískum óstöðugleika á Íslandi. Þeir óttast að ekki einu sinni undirritaður samningur haldi gagnvart stjórnvöldum og hafa sumir fengið að kenna á afar hvikulu skattumhverfi.“

Virðulegur forseti. Það má vel spyrja af hverju ég sé að vitna í þetta í ræðu minni í umræðum um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. En ég kem inn á þetta í tengingu við forgangsröðun þingsins á málefnum, af hverju þetta þarf að vera svona.

Reyndur þingmaður úr stjórnarliðinu sagði við um daginn, hann tilheyrir öðrum stjórnarflokknum þessi þingmaður: Jón, veistu, ég tel að þetta sé reynsluleysi. Ég er ekki frá því að það sé dálítið til í því. Við síðustu alþingiskosningar komu 27 nýir þingmenn inn á þing í öllum flokkum, árið 2009. Árið 2007 höfðu líka margir nýir þingmenn komið til starfa á þinginu. Þannig að út af þingi fóru menn með langa þingreynslu. Eins sjáum við á eftir fólki við næstu kosningar sem hefur langa þingreynslu. Ég held að að mörgu leyti megi rökstyðja það að ákveðið reynsluleysi hafi kallað á það hvernig vinnubrögðum hefur verið hagað hér á þinginu og endurspeglast í þessu máli.

Segja má að markmið hv. formanns Samfylkingarinnar og meðflutningsmanna hans á því máli sem við hér ræðum sé ljóst, að menn hafi verið farnir að gera sér grein fyrir því og kannski miklu fyrr — nokkuð fljótlega eftir að hann tekur við formennsku í flokki sínum kemur hann fram með þessar breytingar og gefur það út að lengra verði ekki komist í þessu máli, stjórnarskrármálinu, það sé ljóst að því muni ekki ljúka með heildarendurskoðun á þessu þingi. Hann hjó á hnútinn, þann hnút sem hæstv. forsætisráðherra og forustumenn þessarar ríkisstjórnar höfðu hnýtt svo rammlega að hann var illa leysanlegur.

Ég hef grun um að mörgum hv. þingmanni stjórnarflokkanna hafi verið það ljóst fyrir löngu, eins og okkur hinum, að þetta mál yrði ekki til lykta leitt á þessu þingi, alla vega ekki með heildarendurskoðun. En forustumenn flokkanna sem þó eru með lengsta reynslu á þingi höfðu haldið þingheimi í spennitreyju allan þennan tíma.

Við erum gagnrýnd fyrir það hér, virðulegi forseti, stjórnarandstaðan, að halda uppi svokölluðu málþófi. Ég legg út af fyrir sig ekki endilega svo neikvæða merkingu í það orð. Það er eðlilegt þegar kemur að alvarlegum málum, málum sem mikill ágreiningur er um, að stjórnarandstaðan, minni hluti þingsins, hafi einhver vopn í höndum. Þetta er þekkt á öðrum vettvangi, til dæmis í atvinnulífinu. Þar hafa verkalýðsfélög verkfallsrétt. Menn verða á endanum að ná einhverri niðurstöðu með samningum þannig að hlutirnir geti haldið áfram. Um það snýst þetta hér í þinginu að menn verða að ná samningum milli meiri hluta og minni hluta um vinnubrögð og afgreiðslu mála.

Þegar tillaga hv. þm. Árna Páls Árnasonar kemur fram má segja að það sé ákveðið útspil til að reyna að ná sátt um málin. Hvað gerist svo í framhaldinu? Fram koma breytingartillögur. Fram kemur breytingartillaga frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur sem er kölluð tundurskeytið, það setur málið í ákveðið uppnám. Það sem gerist síðan, og er athyglisverðara, er að fram kemur breytingartillaga frá þingmönnum, þar á meðal þingflokksformanni Samfylkingarinnar, sem setur málið í ákveðið uppnám og rýrir það traust sem hefði verið svo mikilvægt að reyna að halda til að lúka niðurstöðu í málinu, vekur tortryggni í málinu þannig að það verður miklu flóknara og erfiðara að ná einhverjum lokum í því.

Breytingartillaga hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur fjallar í raun um að stjórnarskránni verði breytt, heildarendurskoðunin fari í atkvæðagreiðslu. Því má segja að í þessu máli núna sé allt málið undir, þ.e. að við þurfum að ræða það allt saman. Ég tók ekki mikinn þátt í nefndarstörfum varðandi breytingar á stjórnarskránni. Þó var óskað eftir því að við í atvinnuveganefnd, þar sem ég sit að beiðni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, færum yfir ákveðnar greinar, við áttum að leggja mat á þær.

Óskað var eftir umsögnum af hálfu atvinnuveganefndar og fengnir gestir á fund nefndarinnar. Eftir marga fundi með gestum vakti það athygli og var gagnrýnisvert að meiri hluti nefndarinnar lýsti eingöngu þeim sjónarmiðum og athugasemdum sem fram komu á fundum nefndarinnar án þess að gera nokkra tillögu að breytingum. Fólk var með öðrum orðum beðið um að skrifa umsagnir, kom og gerði grein fyrir þeim umsögnum á fundi nefndarinnar. Nefndin þuldi þetta síðan allt upp og sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Nefndin var með öðrum orðum algjör óþarfamilliliður í þessari vinnu. En þetta er einkennandi fyrir vinnubrögð í svo mörgum málum sem maður hefur kynnst á þessu kjörtímabili.

Það má segja að sú alvarlega mynd sem var dregin upp fyrir okkur af frumvarpinu á fundum nefndarinnar hefði að sjálfsögðu átt að leiða til þess að stjórnarmeirihlutinn mælti gegn framgangi frumvarpsins í óbreyttri mynd og hvetti til þess að ráðist yrði í umfangsmiklar endurbætur. En því var ekki að heilsa. Ábyrgð alþingismanna við lagasetningu er alltaf mjög mikil, þó hvergi eins mikil og við breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins.

Breytingar á stjórnarskrá eru almennt háðari túlkun en þau ákvæði sem tekin eru óbreytt úr gildandi stjórnarskrá og þegar hafa mótast í réttarframkvæmd varðandi efni og inntak. Það er nefnilega mikil hætta á því að túlkunarvandi myndist og við breytingar á stjórnarskrá ber að reyna að takmarka það sem mest menn mega að skapa túlkunarvanda og menn eiga að reyna að draga úr líkum á því að réttaróvissa skapist í landinu eins og kostur er.

Þetta er það sem við stöndum frammi fyrir núna, virðulegi forseti. Ég ætla ekki að segja að við séum stödd á upphafsreit, en okkur hefur lítið miðað. Það á auðvitað að vera markmið okkar, eins og ég kom hér inn á, að sameinast um víðtæka sátt, ekki bara hér á þingi heldur einnig meðal fræðimanna og þjóðarinnar. Á þeim grundvelli eiga breytingar á stjórnarskránni að byggja. Hvort þær eru gerðar árinu fyrr eða árinu seinna skiptir ekki öllu máli. Við höfum fordæmi, bæði úr sögu okkar Alþingis og af reynslu annarra þjóða, fyrir því að þær taka langan tíma, breytingar á stjórnarskrá, mjög langan tíma ef á þarf að halda. Það að sætta sjónarmið, ná sem flestum að borðinu, er það sem máli skiptir.

Ég er alveg viss um að hv. þingmenn Árni Páll Árnason og Guðmundur Steingrímsson og hæstv. menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, hafa haft þetta að markmiði þegar þau lögðu tillögu sína fram og svo aðra tillögu um það hvernig menn geta séð fyrir sér hér á þingi hver næstu skref gætu orðið, á nýju þingi. Þar er lagt til að við stjórnarskrána bætist nýtt ákvæði „um stundarsakir“, eins og það er orðað, þar sem verða þá í gildi tvö breytingarákvæði við stjórnarskrána. Það tel ég í sjálfu sér óheppilegt. Ég held að Alþingi hefði frekar átt að reyna að sameinast um eina breytingartillögu.

Þá er komið að því hversu háan þröskuld eigi að setja fyrir því að hægt verði að breyta stjórnarskránni. Í þessari tillögu er gert ráð fyrir að samþykki Alþingi frumvarp til laga um breytingar á stjórnarskrá með minnst 3/5 hlutum greiddra atkvæða skuli það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu. Þar er kveðið á um að verði frumvarpið samþykkt með 3/5 hlutum greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu skuli það staðfest af forseta Íslands innan tveggja vikna og teljist þá gild stjórnarskipunarlög.

Komið hefur fram breytingartillaga við þessi ákvæði þar sem í raun er dregið úr þessum þröskuldi. Við getum velt því fyrir okkur, virðulegi forseti, ef við komumst að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að þingið verði þess bært að gera breytingar á stjórnarskránni, ef við hefðum verið með slíkt ákvæði í stjórnarskrá, hvaða áhrif það hefði haft á þessu kjörtímabili.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal kastaði hér fram hugmynd í dag með nokkuð háum þröskuldi, að 40 þingmenn yrðu að samþykkja breytingar á stjórnarskránni til þess að það næði í gegn. Ef við hefðum haft slíkt ákvæði í stjórnarskrá á þessu kjörtímabili hefðum við þá farið í þessa vegferð eins og upp í hana var lagt? Nei, ég held að það hefði nefnilega ekki verið. Ég held að slíkt ákvæði hefði þvingað okkur til að ná meiri sátt. Strax í upphafi hefðu menn orðið að setjast niður og ná meiri sátt um það hvernig við næðum málum fram, hvernig við gætum unnið að breytingum á þessari stjórnarskrá.

Hvort hefði nú verið vænlegra til árangurs, virðulegi forseti, að við værum þvinguð til slíkra vinnubragða heldur en hér hafi verið leyft að grassera þeirri óeiningu og samstöðuleysis sem raun ber vitni? Ég held að engum blöðum sé um það að fletta að slíkt hefði getað leitt til góðs. Ég tel því, eins og fleiri þingmenn hafa komið hér inn á, að ef menn settust yfir þetta og reyndu að koma sér saman um niðurstöðu, sem er byggð á grunni fyrstu tillögunnar sem kom fram og þeim málflutningi sem átti sér stað þegar það frumvarp var lagt fram, gætu menn verið að ná saman.

Þá komum við aftur að því að vandamálið liggur kannski ekki hjá stjórnarandstöðunni í þessu máli, þ.e. í ágreiningi milli stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar, heldur liggur vandinn innan stjórnarflokkanna. Það er eitthvað sem við höfum áður séð gerast á þessu tímabili í stórum málum, að þessir ríkisstjórnarflokkar hafa ekki komið málum hér í gegn vegna óeiningar á milli flokkanna og innan flokkanna. Hér birtist þetta alveg kristaltært í þeim breytingartillögum sem lagðar eru fram, meðal annars af þingflokksformanni Samfylkingarinnar.

Þá veltum við því fyrir okkur, eðlilega ef menn ættu að ná saman, er hægt að mynda eitthvert traust hér á milli? Þegar óeiningin og skoðanaágreiningurinn er svona mikill innan stjórnarflokkanna að þeir geti ekki einu sinni hamið sitt fólk, þeir hafa ekki stjórn á sínu eigin fólki, getum við treyst því að gera eitthvert samkomulag sem heldur til loka þessa þings? Ég held að vandamálið liggi þarna.

Því væri í raun réttast, virðulegi forseti, að forseti frestaði þessari umræðu, við tækjum hér upp vinnu við önnur mál sem liggja mörg hver fyrir þinginu og mörgum þeirra er áríðandi að ljúka, áríðandi að koma í höfn, og um mörg þeirra er algjör samstaða.

Virðulegi forseti. Það er hlutverk forseta þingsins að stýra vinnubrögðum, að leiða mál til lykta og leiða í jörð svo djúpstæðan ágreining sem uppi er í þessu máli. Það er verkefni forseta þingsins að stýra þeirri vinnu.

Ég held að forseti ætti að fresta þessari umræðu og setja forustumönnum flokkanna það fyrir, sérstaklega ríkisstjórnarflokkanna, að leysa þessi mál, í stað þess að við séum að staglast hér fram og til baka með engum árangri. Þetta er til vansa fyrir okkur sem erum fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi Íslendinga. Þetta eru ekki vinnubrögð sem við getum viðhaft. Vantraustið er mikið. Tortryggnin er mikil. Hún er það að gefnu tilefni. Það er bara einfaldlega þannig að dæmin eru of mörg til þess að myndast hafi eitthvert traust. Þessi tilraun forustumanna Samfylkingarinnar, formanna Samfylkingar og Vinstri grænna, ásamt hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, er eiginleg að renna út í sandinn vegna þessa, ekki af því að stjórnarandstaðan sé ekki mögulega tilbúin til að koma að borðinu og ræða einhverja niðurstöðu í þessu heldur vegna þess að það er svo mikið vantraust innan dyra í ríkisstjórnarflokkunum út af þessu máli, það er svo mikill ágreiningur.

Virðulegi forseti. Ég held að það væri í þágu þingsins og í þágu þjóðarinnar að forseti tæki þannig á þessu máli sem ég hef hér lýst að fresta umræðu um það á meðan menn leysa það. Við getum unnið áfram í öðrum málum sem mörg hver, eins og ég kom inn á áðan, þurfa að fara í gegnum þingið, mál sem sátt er um að afgreiða og önnur sem við munum eflaust takast á um og höfum misjafnar skoðanir á. En eins og málin standa nú er það eina leiðin ef við ætlum að ljúka þessu með einhverjum sóma.