141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum spurningarnar. Ég held að ég geti alls ekki tekið undir með honum þegar hann segir að þessi ríkisstjórn hafi lyft grettistaki í ríkisfjármálum og stuðlað að eflingu fjárfestinga. Ég held einmitt að McKinsey-skýrslan sem oft er vitnað til segi okkur að mörgu leyti að við gætum verið að gera miklu betur.

Spurt er: Hvar er uppspretta fjármagnsins og hvað er það sem skiptir okkur máli? Að mínu mati skiptir grundvallarmáli að grunnatvinnuvegum þjóðarinnar séu sköpuð þau skilyrði sem þarf til að þeir geti verið sú stoð og stytta sem þeir eiga að vera íslensku samfélagi. Það eru atvinnugreinar sem byggja fyrst og fremst á nýtingu náttúruauðlinda, sjávarútvegur, orkufrekur iðnaður, ferðamannaiðnaður. Það þarf auðvitað að leita allra leiða til að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Okkur er að takast það að mörgu leyti. En hvert sem við horfum er ótrúlega mikil fylgni á milli nýsköpunar og þeirra fyrirtækja sem hafa eflt starfsemi sína og þess að þau hafa verið að byggja sig upp á þjónustu við grunnatvinnugreinarnar. Þannig hafa þau getað skapað sér vettvang.

Ég heimsótti til dæmis í gær ásamt öðrum þingmanni fyrirtæki í Hafnarfirði sem flytur núna út fleiri, fleiri báta á hverju ári, en byrjaði starfsemi sína í að þjóna íslenskan sjávarútveg. Við heimsóttum líka vélsmiðju (Forseti hringir.) sem hefur tífaldast að stærð frá árinu 2007 og byggir núna á vinnu fyrir álfyrirtæki á alþjóðavettvangi. Sú starfsemi byggir á þeirri reynslu sem þeir fengu af því að þjónusta áliðnaðinn hér heima. Ég tel að hæstv. ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkar hafi ekki skapað þessum greinum þann vettvang (Forseti hringir.) sem lýst var í orðum forstjóra Mannvits og ég vitnaði í áðan. Það er það sem hefur vantað á kjörtímabilinu.