141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir það. Ég vildi svo gjarnan hafa lengri tíma, en þetta er áhugavert því að í McKinsey-skýrslunni segir að áhersla á auðlindagreinarnar muni ekki skila okkur nægum verðmætum til lengri tíma litið til að skapa næg störf, verðmæt störf, og til að geta viðhaldið lífskjörum hér til langframa. Í McKinsey-skýrslunni segir að leggja þurfi áherslu á alþjóðageirann, þ.e. þau fyrirtæki sem geta selt vörur sínar og þjónustu erlendis og fá tekjur inn í þjóðarbúið. Þangað eigum við að sækja verðmætin í framtíðinni.

Hvað er að gerast? Jú, rekstrarumhverfi þessara fyrirtækja hér á landi er ekki nógu gott. Þau búa við höft, háan fjármagnskostnað, óstöðugleika í mynt, aðbúnaður þeirra er ekki nógu góður. Hér vil ég ekki fá í andsvari gömlu mýtuna um skattana, vegna þess að tekjuskattar fyrirtækja á Íslandi eru t.d. þeir fimmtu lægstu innan OECD-landanna. Þar eru yfir 40 lönd. Skattaðbúnaður fyrirtækja er ekki það sem háir vexti þessara þekkingargeira, heldur hitt: Starf innan hafta, (Forseti hringir.) óstöðugleiki í mynt og hár vaxtakostnaður. Þar held ég að okkur hv. þingmanni greini á þegar við jafnaðarmenn segjum: Við skulum skapa verðmæti, skapa peninga með því að búa þessum fyrirtækjum betri aðbúnað. Það gerum við með annarri mynt.