141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:27]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson kom víða við í ræðu sinni og var kannski ekki allt um stjórnarskrána eða það frumvarp sem hér er undir en látum það vera.

Hann lýsti því meðal annars, nú seinast í andsvari, að hann hefði vissar áhyggjur af því að meira væri undir en sú eina eða tvær greinar sem við hefðum talað um. Hv. þingmaður hlýtur að hafa tekið eftir því að flestir forsvarsmenn ríkisstjórnarflokkanna sem hafa staðið í ræðustól og flestir þeir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna sem hafa talað hér telja tillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur ótæka. Ég held að þingmaðurinn geti alveg verið rólegur hvað það varðar.

Hins vegar langar mig að spyrja hann að tvennu. Í fyrsta lagi hvort þingmaðurinn sé sammála mér í því að tiltölulega hár þröskuldur eigi að vera til að breyta stjórnarskránni og vísa ég þar m.a. til hugmynda hv. þm. Péturs H. Blöndals. Eins og hefur raunar komið fram í ræðum margra hér, bæði stjórnarandstæðinga og stjórnarþingmanna, eru flestir sammála því að stjórnarskráin sé það mikið grundvallarplagg að ekki eigi að vera auðvelt að breyta henni.

Í öðru lagi langar mig að spyrja þingmanninn hvort hann sé sammála því sem kom fram í ræðu hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar í dag en ekki var hægt að skilja hann öðruvísi en að það ákvæði sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lagði til um auðlindir í þjóðareign mundi leiða til þess að hér kæmist á sósíalískt þjóðskipulag. Mig langaði svolítið að heyra álit hv. þingmanns á þeim vangaveltum.