141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að að því leyti þurfi ekkert að vera mjög langt á milli manna. Ég held að ef menn settust niður til að fjalla um það atriði af heilindum og þeir gætu þá treyst því að engin frekari tundurskeyti kæmu inn í umræðuna væri hægt að leysa málið. Ég held að svo stutt sé á milli manna í því og tek þar undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni sem talaði aðeins á undan mér í kvöld og kom einmitt inn á það hið sama. Hann sagðist reyndar treysta sér til þess að ljúka því á skömmum tíma.

Þá komum við aftur að því að auðvitað er slæmt, mjög slæmt að við skulum ekki geta byggt upp traust í þessu mikilvæga máli á milli flokkanna hér á þingi og ég ítreka ábyrgð forseta í því að klára málið, kalla til ábyrgðar. Ég veit að hún er að gera sitt besta, ég veit að hún hefur lagt sig fram, virðulegur forseti hefur lagt sig fram sem mest hún má og meinar vel. En ábyrgðin er auðvitað formanna og forustumanna flokkanna og það er forseta að gera þeim grein fyrir ábyrgð sinni í málinu.