141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég tek undir með hv. þm. Birni Vali Gíslasyni og fagna því að á dagskrá okkar hér í dag og undanfarna daga hafa verið tvö mál, sem eru núna nr. 19 og 20 á dagskránni, þar sem við getum rætt þetta mjög ítarlega. Það er rétt að hafa þá umræðu fyrir sér, eins umfangsmikil og hún hlýtur að verða um bæði þau mál sem þar standa fyrir dyrum og þá forsögu alla.

Ég er kominn hingað upp til að spyrja framsóknarmenn vegna þess að ég fékk í morgun inn um lúguna hjá mér í kjördæminu Reykjavík norður litla kveðju frá fjórum frambjóðendum sem mér líst ákaflega vel á, sérstaklega þann nr. 2 sem ég þekki ágætlega, Sigrúnu Magnúsdóttur, og aftan á eru nokkur stórfengleg kosningaloforð. Eitt þeirra er svona: „Sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum verði tryggð.“ (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Kosningaloforð framsóknarmanna hafa mátt sæta því af einhverjum ástæðum að um þau er efast og þau gagnrýnd. (Gripið fram í.) Það er talið að Framsóknarflokkurinn ætli ekki að efna þessi kosningaloforð frekar en önnur sem nefnd hafa verið í sögunni. En það sem framsóknarmenn geta gert er að sýna kjósendum núna að þeir efna kosningaloforðin vegna þess að (Gripið fram í: Heyr, heyr.) með því að styðja tillögu sem hér liggur fyrir um auðlindaákvæði í stjórnarskrá, sem sérstaklega er nefnt í ályktun flokksþings framsóknarmanna sem haldið var fyrir nokkrum vikum, efna þeir ekki bara kosningaloforð sín eftir kosningar heldur allt eins fyrir kosningar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þar með mundu þeir ávinna sér það trúnaðartraust sem þá vantar nú svo sárlega.