141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í atkvæðagreiðslum í gær út af þróunaraðstoð Íslendinga kom fram sjónarmið hjá þingmanni Framsóknarflokksins sem ég er alveg sérstaklega ósammála, nokkuð skuggalegt sjónarmið þar sem þingmaðurinn greiddi atkvæði gegn því að við tækjum þátt í að styðja við fátækt fólk í þróunarlöndunum. Ísland hefur lengi verið í skömm hvað varðar framlög til þróunarmála en siglir hins vegar hraðbyri í rétta átt, að markmiði um 0,7% af landsframleiðslu. Þess vegna vildi ég eiga orðastað við hv. formann fjárlaganefndar og varaformann Vinstri grænna um þessi mál. Þetta gefur tilefni til að ræða þessi mál í heild sinni.

Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar, veltir því upp í blaðagrein að hann var spurður einu sinni: Hvað græðum við á því? Hann segist hafa svarað fyrirspyrjanda sínum: Eigum við að græða á því?

Okkur Íslendingum hefur gengið vel síðustu árin og hann segir frá því að þegar hann hóf þingmennsku árið 1974 voru Íslendingar enn að taka við þróunaraðstoð utan úr heimi. Þá græddum við á því. Hann bendir á að Ísland skuldi umheiminum að sjálfsögðu liðsinni við þjóðir sem eru fátækari en við vorum alla 20. öldina. Þjóð sem hefur náð jafnmiklum árangri og Íslendingar og notið til þess mikils stuðnings annarra þjóða og alþjóðastofnana í tímans rás skuldar umheiminum að sjálfsögðu það að styðja við bakið á bláfátækum þjóðum í þriðja heiminum. Sem dæmi má nefna meðaltekjur í Malaví þar sem Íslendingar hafa verið mjög öflugir í þróunaraðstoð, þeir eru 2 dollarar á dag, 50 sinnum lægri tekjur en við Íslendingar höfum.

Því vildi ég ræða þetta sorglega sjónarmið sem ég vona að gæti ekki í öðrum flokkum en Framsóknarflokknum og spyr hv. varaformann Vinstri grænna um afstöðu hans til þess viðhorfs sem fram kom þarna í gær.

Þetta er stórpólitísk spurning. Hvernig ætla flokkarnir að halda á þessum málum eftir kosningar? Eigum við áfram að stefna að því markmiði (Forseti hringir.) að verja tilteknu og skilgreindu markmiði af þjóðartekjum til þróunaraðstoðar við bláfátækt fólk í þriðja heiminum? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)