141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er margt rætt og það hefur stundum verið sagt, m.a. áðan í hávaða og með látum, að þingmenn séu eins og óþekkir skólakrakkar. Mér þykir ómaklegt að líkja óþekkum þingmönnum við skólakrakka, ég ætla alveg að segja ykkur það þar sem ég kem úr þeim geira.

Í upphafi ætla ég að taka undir með hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, mér finnst ástæða til að skoða bæði þingsköpin og annað sem hún nefndi.

Undanfarið hafa farið fram miklar og að mínu mati misgagnlegar umræður um stjórnarskrármálið. Ég hef fylgst með þeim bæði innan og utan þings. Þriðjudagsumræðurnar lofuðu ágætu og maður bar þá von í brjósti að það væri eitthvað jákvætt að gerast, en svo fór þetta í gamla súra gírinn í gær og þingmenn fóru að spyrja hver annan og oftar en ekki um eitthvað sem hreint ekkert tengdist því sem framsögumaður var að ræða. Það er þá ekkert annað en málþóf að mínu viti. (Gripið fram í: Rangt.) Nei, það er ekki rangt, hv. þingmaður, ég hlustaði á það. Það á ekki að þæfa málin hérna undir þeim merkjum að það sé ekki nógu mikið rætt eða að allt sem komi frá ríkisstjórnarflokkunum sé illa unnið og þjóðinni til meira ógagns en gagns. Það er kominn kosningafiðringur í mannskapinn, ég held að það sé alveg ljóst, og mjög margir sem vilja slíta þingi og fara í páskafrí. Hinn almenni borgari er almennt í vinnu, held ég, og okkur er ekki neinn ógreiði gerður með því að vera hér eins lengi og við þurfum að vera.

Hvað er það sem þingmenn geta ekki sagt í sölum Alþingis? Er það þetta með auðlindirnar? Augljóslega eru skiptar skoðanir sem koma fram í pontu um það að auðlindir eigi ýmist að vera í þjóðareigu eða ekki. Af hverju vilja menn þá ekki afgreiða náttúruverndarfrumvarpið, vatnalögin, fiskinn, allt mál sem snerta eignarhald á auðlindum náttúrunnar? (Gripið fram í: Hverjir eru í ríkisstjórn?) Ef þingmenn stjórnarandstöðunnar eru svo sannfærðir um að komast til valda eins og þeir telja núna líklegast samkvæmt skoðanakönnunum ætti þeim ekki að verða skotaskuld úr því (Forseti hringir.) að breyta því sem þeir telja þjóðina hvort sem er ekki hafa vit á (Gripið fram í: Þið höfðuð fjögur ár.) í stjórnarskránni eða um auðlindamálin. Það verður spennandi (Forseti hringir.) að sjá hvernig samvinna og samræðupólitíkin verður hérna á næsta þingi því að það er lítill vilji að mínu viti hér inni (Gripið fram í: … Vinstri græn.) um raunverulegan vilja stjórnarandstæðinga til að ræða mál í sátt og samlyndi.