141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir vill ekki að VG sé bendlað við ákveðna samninga. Hvað þá með það frumvarp sem liggur nú fyrir þinginu um Bakka? Þar leggur (Gripið fram í.) hæstv. atvinnu- og nýsköpunarráðherra, fyrrverandi formaður flokks þess hv. þingmanns sem hér talaði rétt áðan, til að tryggingagjald á það fyrirtæki verði afnumið með öllu, skatthlutfallið verði lægra en kveðið er á um í lögum um einmitt þann umbúnað sem við viljum hafa almennt um stórfjárfestingar hér á landi og hefur verið inni í þinginu — lægra skatthlutfall. Það er sérstaklega kveðið á um það að ef skattar á Íslandi skyldu fara niður fyrir það hlutfall sem því fyrirtæki var boðið mundu þeir fylgja því en færu aldrei upp fyrir það hlutfall sem kveðið er á um í þessu frumvarpi um fjárfestingar á Bakka. (Gripið fram í.)

Með öðrum orðum, tryggingagjaldið af og skattarnir lækkaðir frá því sem almennt er. Síðan er þessu fyrirtæki boðinn eins konar námsstyrkur upp á 220 og eitthvað milljónir sem renna til fyrirtækisins fyrir utan aðra fjármuni sem munu renna út úr ríkissjóði til þess og verkefnisins og nema einhvers staðar í kringum 3,5 milljörðum íslenskra króna. [Frammíköll í þingsal.]

Nú er það svo að ég styð mjög svo uppbyggingu á Bakka en ég verð að segja að það er svolítið furðulegt að hlusta á hv. þm. Álfheiði Ingadóttur lýsa þessum skoðunum sínum til að tryggja að hennar flokkur verði nú ekki bendlaður við eitt eða neitt, á sama tíma og hér liggur fyrir frumvarp um að eitt fyrirtæki, eina fyrirtækið á Íslandi, verði undanþegið tryggingagjaldi. Sama gjaldið og þessi ríkisstjórn lofaði að lækka á almennan atvinnurekstur á Íslandi og stóð ekki við. Nú ákveður hún að bjóða þessu stóriðjufyrirtæki að tryggingagjaldið á það verði afnumið. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég verð að leyfa mér að segja: Ég gef ekkert fyrir yfirlýsingar (Forseti hringir.) hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur í þessu máli, ekkert. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Hljóð í þingsalnum.)