141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

umræða um dagskrármál og störf þingsins.

[11:18]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Hvað varðar umræðu um fundarstjórn forseta út af fyrirspurn minni til hv. þm. Björns Vals Gíslasonar um hvert væri viðhorf hans og flokks hans til þess hvort við Íslendingar ættum að ná settum markmiðum í framlögum til þróunaraðstoðar, er meistaraleg útúrsnúningsumræða í gangi. Tilefnið var atkvæðagreiðsla í gær þar sem kom fram sjónarmið þingmanns um það sem sætti miklum tíðindum. Þingmaðurinn útskýrði sitt sjónarmið alveg prýðilega í kvöldfréttum í gær, allt í góðu. Ég vildi spyrja hv. þingmann og varaformann annars flokks um sjónarmið þess flokks.

Svíður sjálfstæðismönnunum í salnum að ég spyrji þingmenn Vinstri grænna um stefnu þeirra í þróunarmálum að gefnu tilefni? Ég var ekki að gera lítið úr sjónarmiðum þingmannsins. Hann var alveg afdráttarlaus í þeim og greiddi atkvæði á móti. Mér hefði þótt fínt að geta einnig tekið umræðu við hv. þingmann, það var alveg sjálfsagt mál, en það sjónarmið kom vel fram í gær og allt í góðu með það. Ég er í fullum rétti hér, þrátt fyrir andúð Sjálfstæðisflokksins á því, (Forseti hringir.) að spyrja þingmenn annarra flokka um stefnu þeirra flokka í þróunarmálum þótt það sé viðkvæmt mál fyrir suma í salnum að ræða þróunarsamvinnustefnu.