141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

umræða um dagskrármál og störf þingsins.

[11:20]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að gera athugasemd við fundarstjórn forseta en skil ég rétt að verið sé að gera athugasemd við fundarstjórn forseta í þá veru að þingmaður á Alþingi Íslendinga hafi spurt mig spurninga í stað þess að spyrja einhvern annan? Mér finnst það satt best að segja ótrúleg athugasemd. Ef hún kemur frá stjórnarandstöðuflokkunum tveimur saman, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, því nýja bandalagi, silfurskeiðabandalaginu sem hefur verið myndað á Alþingi í undirbúningi fyrir kosningar, tek ég í kjölfarið á því undir það með hv. þm. varaformanni Framsóknarflokksins að ræða eigi sérstaklega hvort yfirleitt sé heimilt að spyrja spurninga, hvort eigi að taka fyrir sérstaklega til hverra spurninga er beint, hvor eigi að taka fyrir hvernig svörin verða eða hvort á að heimila umræður (Forseti hringir.) um störf þingsins almennt.

Ég er ekki að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta. Mér finnst hún ágæt og legg til að dagskránni verði haldið áfram eins og hún liggur fyrir hér.