141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

umræða um dagskrármál og störf þingsins.

[11:21]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek eindregið undir með hæstv. forseta. Það er málfrelsi á Alþingi og þingmenn velja sér umfjöllunarefni og viðmælendur að vild sinni, enda gæti þeir virðingar þingsins í orðum sínum. Þyki einhverjum að sér vegið hefur hann auðvitað fulla heimild til að taka til máls og bera af sér sakir og eru mörg dæmi þess að menn hafi nýtt þann sjálfsagða rétt.

Það var auðvitað ekki bara einn þingmaður sem var á móti málinu í gær. Það var líka annar þingmaður sem samþykkti það með alveg sérstökum fyrirvara og það er kannski eitt af tilefnunum til að vera í þessari umræðu.

Ég vil hins vegar taka undir með þeim sem vilja hvetja til þess að dagskrárliðir nr. 19 og 20, um Bakka, verði teknir á dagskrá. Þess vegna er auðvitað mikilvægt að við göngum strax til atkvæða um stjórnarskrármálið og auðlindaákvæðin sem eru algerlega fullrædd, þannig að við getum haldið áfram niður eftir dagskránni, eytt þessari óvissu í eitt skipti fyrir öll og lokið þessu þingi með sæmilegum sóma fyrir alla þá stjórnmálaflokka sem eru hér inni, hafa rætt auðlindaákvæðið samfleytt í 13 ár og eiga ekki eftir að bæta neinu orði í þá umræðu.