141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

umræða um dagskrármál og störf þingsins.

[11:25]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Vegna þessarar umræðu um hver spyr hvern er það fyrirkomulag sem við höfum hér þannig að menn senda fyrir fram til þess þingmanns sem þeir ætla að eiga orðastað við hvert efnið er, hafa samband, senda tölvupóst eða hringja til að þeir viti um hvað er að ræða. Sú ræða sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson flutti sneri alfarið að, og var reyndar nokkuð harkaleg, afstöðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur. Þannig var það og þeir sem hlýddu á heyrðu það.

Ég hefði talið alveg eðlilegt miðað við til hvers þessi liður er og hvernig hann er hugsaður að fyrirspurninni væri beint til þess þingmanns sem var til umræðu og öll ræðan sneri að. Það sem gerist er að hv. þingmaður beinir spurningunni til hv. þm. Björns Vals Gíslasonar sem hafði með engum hætti verið til umræðu í ræðu hv. þingmanns. Það er þess vegna sem ég geri athugasemdir við það. Þetta býður þeirri hættu heim að menn fari að nota það form til að ráðast (Forseti hringir.) á einstaka þingmenn og í staðinn fyrir að gefa þeim tækifæri til að svara snúi þeir sér til pólitískra samherja sinna (Forseti hringir.) og bjóði þeim að svara þeim árásum sem eru fluttar fram.