141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[11:54]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir ágæta ræðu. Ég tók eftir því að hann gagnrýndi sérstaklega eina setningu í breytingartillögu sem ég og þrír aðrir þingmenn stöndum að varðandi auðlindaákvæðið. Það er rétt að árétta að þessi setning, með leyfi forseta: „Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar“, er ekki dregin úr hatti í þessari viku eða þeirri síðustu. Hún er hluti af þeim tillögum sem stjórnlagaráð sjálft samþykkti á sínum tíma, algjörlega orðrétt. Hún kom inn í þingið ekki fyrr á þessu ári, ekki á síðasta ári heldur 29. júlí 2011. Þannig að þetta ákvæði hefur verið hér til umræðu allan tímann og enginn er að vippa því inn í þingumræðuna á elleftu stundu.

Það er rétt að árétta sömuleiðis að þessi breytingartillaga sem við höfum lagt fram um auðlindaákvæðið er algjörlega óbreytt frá þeirri tillögu sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leggur fram sem sína lokaniðurstöðu eftir ítarlega umræðu um málið.

En ég vildi spyrja hv. þingmann beint: Er hann fylgjandi því að þessi breytingartillaga um auðlindaákvæði komi til atkvæða í þinginu áður en við ljúkum störfum á þessu þingi? Ég spyr ekki síst í ljósi þess að Framsóknarflokkurinn hefur ítrekað lýst sig reiðubúinn til að samþykkja auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Þingflokkur framsóknarmanna steig fram í janúar og hvatti til þess að sérstök áhersla yrði lögð á að samþykkja auðlindaákvæði og ákvæði um aukið beint lýðræði fyrir þinglok. Á landsfundi sínum 10. febrúar samþykkti flokkurinn ágæta ályktun um auðlindaákvæði sem yrði sett í stjórnarskrá og er þar fullkomlega samkvæmur sjálfum sér.

Getum við treyst því að hv. þingmaður og Framsóknarflokkurinn styðji okkur í því að samþykkja auðlindaákvæði (Forseti hringir.) í stjórnarskrá áður en þingið fer heim?