141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:00]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hver mælikvarðinn er á það hvort svörin séu fullkomin eða ófullkomin, en ég taldi mig hafa svarað því mjög skýrt að ég er reiðubúinn að samþykkja auðlindaákvæði fyrir þinglok, en á sama hátt og hv. þingmaður var ekki reiðubúinn að samþykkja þær tillögur sem komu frá Framsóknarflokknum um auðlindaákvæði frá árinu 2000 og mikil samstaða var um á Alþingi, út af einni setningu, er ég ekki reiðubúinn að samþykkja það ákvæði sem hér er til umræðu og ég tók fram að það væri einmitt út af einni setningu sérstaklega. Ég held að það sé ekkert sérstaklega langt á milli okkar í þessu og ef við skoðum þær tillögur sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram er mjög margt sambærilegt í þessum tveimur tillögum, en ein setning getur skipt máli. Hún getur skipt máli um réttarstöðu fólks, um mikilsverða hagsmuni sem skipta land og þjóð máli.

Ég er alveg viss um að við hv. þm. Skúli Helgason gætum náð samstöðu um þetta ef við settumst tveir niður, en við eigum því miður við einhverja aðra 61 að glíma þannig að ég er ekki viss um að það náist. Ég vona samt og ég segi það alveg hreint út að við getum náð einhvers konar sátt og klárað þetta auðlindaákvæði. Ég held að það væri mjög mikils virði fyrir land og þjóð ef við gætum náð lendingu um ákvæði sem sem mest samstaða er um í samfélaginu.