141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:57]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mundi gjarnan vilja fá meiri umræðu frá hv. þingmanni og sérstaklega þá um stöðu forsetans. Nú búum við við það kerfi hér á landi að forsetinn einn getur vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef reyndar að undanförnu verið sammála þeim skrefum sem hann hefur stigið, en það væri forvitnilegt að heyra í hv. þingmanni hvernig hann sér það fyrirkomulag fyrir sér til framtíðar.

Ég vil svo taka undir þau orð sem hér hafa fallið um mikilvægi flugvallarins í Vatnsmýrinni. Ég benti á að sú aðgerð að tveir aðilar úr Samfylkingunni, annar úr borgarstjórnarflokknum en hinn úr þingflokknum, annar núverandi varaformaður, hinn fyrrverandi varaformaður, skyldu skrifa undir samkomulag þess efnis að hægt væri að byggja á hluta af flugvellinum. Það er gríðarlegt hagsmunamál, sérstaklega fyrir Vestmannaeyinga, allt mitt kjördæmi, Norðausturkjördæmi, og kom til tals að flytja flugvöllinn upp á Hólmsheiði. Ég hélt reyndar og hef staðið í þeirri meiningu að það væri löngu búið að afgreiða þá hugmynd sem ómögulega. Í fyrsta lagi væri ekki hægt að bjóða fólki upp á það að innanlandsflug mundi liggja niðri í langan tíma á veturna og í öðru lagi eru skilyrði þar til aðflugs víst erfið og takmörkuð. Ég hef reyndar heyrt umræðuna um að flytja flugvöllinn til Keflavíkur en ég tel að það mundi eingöngu leiða til þess að innanlandsflug mundi leggjast af að stórum hluta.