141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[13:03]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alrangt hjá hv. þm. Birni Val Gíslasyni að ég hafi aðallega fjallað um flugvallarmál í ræðu minni, þó að mörgu megi líkja saman við lendingarmöguleika í málum og flugvéla, því að það var rétt í lokin enda kom hv. þingmaður á síðasta flóðinu í salinn en það er annað mál.

Ég gæti nánast skrifað undir auðlindaákvæðið eins og það er. Það er ekki það sem stendur í veginum. Það er hins vegar grundvallarskoðun mín að stjórnarskrána verði að afgreiða í einu lagi, ekki á einhverri partasölu eða bútasölu sem verði svo höfð að leiksoppi. Það skiptir ekki máli í stöðunni, það eina sem skiptir máli er að verið er taka þetta í pörtum. Ég vil sýna stjórnarskránni þá virðingu og þann metnað að henni sé skilað í heilu lagi en ekki í einhverjum pörtum og afgöngum og sérsuðusamningum. Það er ekki við hæfi. Þetta þarf að vinnast í einu lagi og það skiptir öllu máli að gera það faglega, gera það vandað alveg eins og ég sagði í upphafi máls míns.

Stjórnarskráin þarf að vera eins og skothelt ljóð. Það þarf að vera víðsýnt, það þarf að vera metnaðarfullt, það þarf að hafa markmið, það þarf að gleðja, það þarf að auka von og bjartsýni. Það skiptir aðallega máli.

Það liggur ekkert á sérstaklega að ljúka stjórnarskránni í dag eða á morgun eða fyrir áramót, en það er mitt markmið að við ljúkum gerð stjórnarskrárinnar á einu ári, að við setjum okkur það markmið og hætta þessum vitleysisvinnubrögðum og setjum málið í almennilegan farveg.