141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar.

687. mál
[13:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forseta Alþingis og hæstv. innanríkisráðherra fyrir að koma til móts við beiðni mína og annarra um að ræða þessa mikilvægu skýrslu og framgang löggæslu á Íslandi. Það er margt hægt að segja þegar við rennum yfir þessa skýrslu og ég gæti farið í vígalegar stellingar.

Hægt væri að tala um gríðarlegan niðurskurð til lögreglunnar á síðustu árum, mikla fækkun lögreglumanna, að þessi ríkisstjórn hafi ekki alltaf stuðlað að því að auðvelda uppbyggingu vegna nýrra ógna. Það er líka hægt að tala um að þessi ríkisstjórn hafi ekki alltaf verið bakhjarl lögreglunnar, ýmist vegna sérstakra viðhorfa sumra flokksmanna í ríkisstjórnarflokkunum gagnvart lögreglunni. Ég gæti nefnt að mér finnst ríkisstjórnin oft ekki hafa stutt nægilega við bakið á hæstv. innanríkisráðherra við það, því að ég veit að hann hefur verið ötull talsmaður lögreglunnar, líka við ríkisstjórnarborðið. Hvort það er innanflokksátökum innan Vinstri grænna að kenna veit ég ekki. Það er hægt að draga allt þetta fram. Ég held að það sé bara ekki rétta nálgunin þegar við komum að svo mikilvægu málefni og ég get tekið undir margt af því sem hæstv. ráðherra kom að í máli sínu.

Ég vil draga það fram sem mér og fleirum í nefndinni fannst svolítið skemmtilegt og áhugavert, það er þessi sérstaða nefndarinnar þar sem fulltrúar löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins hafa verið dregnir saman að borðinu að því að vinna með þessum hætti í sameiningu ákveðna og stefnumarkandi vinnu sem á síðan að skila sér, vonandi með eflingu löggæslunnar.

Skýrslan hins vegar, svo að við förum í hana, dregur það fram að staða löggæslunnar og lögreglunnar er grafalvarleg, það orð er notað. Það er alltaf umhugsunarefni fyrir okkur sem erum í pólitík eða hvar sem er í samfélaginu hversu rétt er að taka sterkt til orða. Eftir að hafa farið yfir fjöldamörg gögn sem okkur bárust í nefndinni, yfir tölfræði, yfir samtöl við lögreglumenn, okkar frábæru lögreglumenn, gott starfsfólk innanríkisráðuneytisins — og ég sé hér Þórunni Hafstein, sem var formaður nefndarinnar, frábær starfsmaður sem leiddi þetta starf með þeim árangri að mínu mati að við komumst að góðri niðurstöðu — eftir alla þá yfirferð nota ég orðið „grafalvarlegt“ um stöðu lögreglunnar. Það orð er allt að því veikasti samnefnarinn um stöðu lögreglunnar eins og hún er í dag. Hverjum er um að kenna?

Það dugar okkur ekki að fara í umkenningarleik. Ekki er hægt að segja að hæstv. innanríkisráðherra beri ábyrgð á þeirri stöðu sem er. Að hluta til gerir hann það, en það gerum við öll. Það gerum við öll sem erum hér á þingi og höfum komið að stjórnsýslunni. Við eigum miklu frekar að draga fram þá hluti, og það gerir skýrslan mjög skilmerkilega, sem gagnast eflingu löggæslunnar, hvernig við styrkjum hana og um leið stoð sem er svo mikilvæg fyrir okkar lýðræðissamfélag.

Maður setur oft fram spurningar í hinum og þessum hópum. Ég er í frábærum saumaklúbbi tíu kvenna. Ég hef spurt: Hvað er það, stelpur, sem ykkur finnst aðalatriðið varðandi lögregluna? Bara að hún sé sýnileg, segja þær, að hún sé alltaf til staðar þegar við þurfum á henni að halda. Þær sögðu: Við þurfum yfirleitt ekki á henni að halda, en þegar við þurfum á henni að halda, að hún sé þar. Þannig nálgast borgararnir hlutverk lögreglunnar, þannig er viðhorfið til hennar. Þannig vilja löggæslumenn líka vera.

Allir þeir lögreglumenn sem við töluðum við vilja vera til staðar fyrir borgarana. Þá eigum við að skapa og móta þannig umhverfi að þeir geti gert það og uppfyllt þær kröfur sem við gerum til þeirra — að þeir geti uppfyllt öryggiskenndina til handa borgurunum í samfélagi okkar.

Vegna fækkunar í lögregluliði, sem er alveg skýrt að hefur orðið, og vegna samdráttar í fjárveitingum leggur nefndin til í fyrsta skrefi að tryggja brýnustu útkalls- og viðbragðsþjónustu og síðan aðra grunnþjónustu lögreglunnar. Forgangsatriðið, og um það er algjör samhljómur hjá okkur þvert á flokka, er að efla almennu löggæsluna, og þá fyrst löggæsluna utan höfuðborgarsvæðisins.

Við erum tveir þingmenn frá höfuðborgarsvæðinu í nefndinni. Eigum við þá að segja: Nei, það þarf fyrst að tryggja löggæslu á höfuborgarsvæðinu. Nei, af því þörfin er meiri úti á landi. Ákallið er þar mikið. Það er ekki lengur hægt að bjóða lögreglumönnum úti á landi að vera einum á vakt, hvort sem þeir eru uppi á heiði eða annars staðar í erfiðum aðstæðum úti á landsbyggðinni. Þannig að við segjum alveg skýrt að það þurfi að fjölga lögreglumönnum á næstu árum um 79 á landsbyggðinni.

Við segjum líka að innan þessa fyrsta forgangsskrefs þurfi að efla löggæsluna á suðvesturhorninu. Frá árinu 2009 til ársins 2012 hefur lögreglumönnum hér fækkað úr 339 í rétt ríflega 303 lögreglumenn. Þetta segjum við að sé forgangsatriði númer eitt. Forgangsatriði númer tvö er að styrkja sérhæfðar deildir lögreglunnar á öllum sviðum og fjölga í rannsóknardeildum, meðal annars fjölga á Keflavíkurflugvelli. Það væri kannski brilljant fyrsta skref af hálfu ríkisstjórnarinnar að segja: Já, við ætlum að styrkja Suðurnesin því að ekkert hefur gerst í þá veru að efna loforð ríkisstjórnarinnar um að styrkja atvinnulífið þar.

Það er ekki tilgangurinn að styrkja atvinnulífið á Suðurnesjum með því að fjölga lögreglumönnum þar, heldur þurfum við að horfast í augu við mikinn fjölda ferðamanna til landsins. Við viljum að sjálfsögðu fjölga þeim en verðum að stuðla að því að öryggismálum þjóðarinnar sé tryggður góður farvegur, og tryggja að landamæragæsla lögreglu sé öflug og virk. Þetta er hluti af því sem fellur undir annað forgangsatriðið, og síðan margt fleira eins og að efla og styrkja lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í tæknideildinni og í tölvurannsóknum.

Forgangsatriði númer þrjú, segjum við, er að bæta búnað lögreglu og þjálfun lögreglumanna. Þetta er allt mjög brýnt og þetta er hluti af því sem ég fagna sérstaklega að algjörlega þverpólitísk samstaða er um.

Ég vil líka draga fram, af því að ég er í allsherjar- og menntamálanefnd, að við fengum ekki tækifæri til að ræða mjög mikilvægt málefni og fara yfir mál sem ekki er endilega samkomulag um þvert á flokka. Ég er ekki að tala um að það sé þvert á flokkslínur heldur þvert á flokka, það er fækkun lögregluumdæma úr 15 í 8. Ég fullyrði að það er gríðarlega mikilvægt skref. Það er ein af forsendum þess að við getum farið í jafnmarkvissa eflingu löggæslunnar að við förum líka í strúktúrbreytingu á kerfinu. Þá mega menn ekki detta í einhverja varðhundastöðu, hvort sem menn eru úti á landi eða hér á höfuðborgarsvæðinu, það er í þágu okkar allra að þora að fara í kerfisbreytingar til þess að við eflum löggæsluna um land allt. Við ætlum okkur að gera það, gera kerfið straumlínulagaðra, spara frekar í yfirbyggingu, setja það út í hina almennu löggæslu með þeim hætti sem nefndin lýsir.

Ég gæti talað miklu lengur og er bara, finnst mér, rétt að byrja, eiginlega búin með formálann. Ég vil draga það fram að þessi skýrsla er áminning fyrir okkur öll, niðurstaða hennar, en hún er fyrst og fremst gerð til að auðvelda væntanlegum innanríkisráðherra að fá skilning og fá stuðning innan nýrrar ríkisstjórnar. Enginn úr væntanlegri ríkisstjórn, þá er ég að meina aðra en innanríkisráðherra, á að geta horft fram hjá því hversu (Forseti hringir.) alvarlegt málið er. Löggæslan þarf á stuðningi að halda, hana þarf að efla. Það þarf stuðning og þverpólitískan stuðning (Forseti hringir.) til þess. Lögregluna verður að styrkja. Enginn kemst undan því að bregðast við því.