141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar.

687. mál
[13:56]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum þetta mál á grundvelli þingsályktunartillögu sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður framsóknarmanna flutti á sínum tíma í þinginu. Það mál var mjög gott og þarft og var brugðist þannig við tillögunni að skipuð var nefnd til að vinna að löggæsluáætlun. Við erum hins vegar ekki komin með löggæsluáætlunina í hendur, hún er ekki tilbúin. Þetta er því áfangaskýrsla á lengri leið.

Hverjir komu nú að vinnunni? Það voru fulltrúar allra þingflokka. Þar á meðal voru reyndar fimm konur, svolítið sérstakt. Svo komu embættismenn að vinnunni. Ég ætla að nefna þá: Þarna voru Snorri Magnússon frá Landssambandi lögreglumanna, Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri, Skúli Þór Gunnsteinsson lögfræðingur og Þórunn J. Hafstein skrifstofustjóri, sem stýrði nefndinni. Með nefndinni unnu einnig Ólafur Helgi Kjartansson, Oddur Árnason og Jón F. Bjartmarz. Þetta var að mínu mati frekar harðsnúinn og öflugur hópur sem náði mjög vel saman um verkefnið og lagði sig mikið fram. Þann árangur sem við náum núna tel ég að megi skýra að vissu leyti með því hvað allir voru viljugir til að ná fram skýrri stefnu og skýrri forgangsröðun við þessar aðstæður.

Það er mjög sérstakt og kom okkur svolítið á óvart að það skyldi ekki hafa gerst fyrr, þ.e. að fulltrúar þingflokka sætu með embættismönnum til þess að ræða heildstætt um málefni lögreglunnar. Ég fór nú í smá rannsókn til þess að athuga hvort það gæti staðist, og sú var raunin. Það hefur gildi í sjálfu sér. Þar sem hópurinn náði fullri samstöðu beinum við því til stjórnmálaflokkanna að taka mið af þessari skýrslu við gerð stjórnarsáttmála næstu ríkisstjórnar, hvernig svo sem hún verður samansett, við fjárlagagerð næstu ára. Þetta eru mjög sterk skilaboð sem koma frá nefndinni. Ef þingheimur í dag tekur undir meginefni skýrslunnar er ekki hægt að túlka það með nokkrum öðrum hætti en þeim að stjórnmálaflokkarnir hafi sameinast um að þetta sé sú lína sem við viljum fara, þannig eigi að efla lögregluna.

Lögreglan er eðli málsins samkvæmt ekki í þeirri stöðu að vilja halda veikleikum sínum á lofti. Hún vill vera sterk og sýnast sterk. Nú er hins vegar búið að skera það mikið niður hjá henni að tala verður opinskátt um hlutina. Það er búið að skera niður um 30% hjá lögreglunni síðan árið 2007, um 2,8 milljarða, eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra. Nú ætlum við að snúa vörn í sókn. Við leggjum það til að miða við þann takt sem við vitum að verður í framtíðinni, en áætla má að á næstu árum verði hækkað um 1,6 milljarða til lögreglunnar, það er hægfara hækkun. Við leggjum til tvöföldun á þeirri upphæð, 3,5 milljarða á næstu árum, þannig að það eru skýr skilaboð um að forgangsraðað verði lögreglunni í hag á næstu árum.

Það er líka annað sem er nauðsynlegt að draga fram í umræðunni. Við göngum út frá þeirri forsendu í skýrslunni að búið verði að samþykkja þær tillögur sem liggja fyrir Alþingi núna um aðskilnað lögreglustjórnunar frá embættum sýslumanna og fækkun umdæma úr 15 í átta, við göngum bara út frá því. Það er svo nauðsynlegt að gera það, virðulegur forseti. Þó að það náist ekki á þessu kjörtímabili þá klárast það vonandi á næsta kjörtímabili. Alls staðar á Norðurlöndunum hafa menn verið að fækka og stækka umdæmin, gera þau þannig faglegri og öflugri og um leið að gera hina miðlægu lögreglu öflugri. Við höfum miðlæga lögreglu hér, ríkislögreglustjóraembættið. Hún þarf að reka ákveðnar deildir; sérsveitina, almannavarnadeild, greiningardeild og fjarskiptamiðstöð fyrir allt landið. Það hafa menn verið að gera á Norðurlöndunum, þeir hafa sett upp embætti ríkislögreglustjóra þar, (Forseti hringir.) eflt þau og fækkað og stækkað umdæmin.

Ég vona svo sannarlega að næsta þing klári það mál líka og veiti (Forseti hringir.) aukna fjármuni til lögreglunnar sem er svo sannarlega brýnt að gera.