141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar.

687. mál
[14:06]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þá skýrslu sem hér er til umfjöllunar. Lögreglan og aðbúnaður hennar hefur verið töluvert til umræðu síðustu missiri og full ástæða til. Eins og flestar opinberar stofnanir hefur hún unnið þrekvirki og óumdeilanlega hefur reynt á stoðir lögreglunnar síðustu ár vegna aðhalds í ríkisfjármálum. Staðan er grafalvarleg eins og hér hefur komið fram, en nú er greiningin komin og okkar að byggja upp og nýta hana sem leiðarljós við gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram og er til eftirbreytni fyrir Alþingi hvernig staðið var að nefndarvinnunni. Þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds vinna með þessum hætti, í sameiningu, stefnumarkandi vinnu er varðar lögregluna. Vonandi verður svo í auknum mæli framvegis í þinginu öllum málum til heilla.

Eins og fram kemur í skýrslunni er lagt til að lögreglumönnum verði fjölgað um 236 og matið er að ástandið á landsbyggðinni sé sýnu verra en á höfuðborgarsvæðinu. Leggja á áherslu á að efla almenna löggæslu á landsbyggðinni og fagna ég því mjög.

Við höfum gengið of nærri löggæslunni. Því miður er staðan sú um hinar dreifðu byggðir landsins að lögreglumenn eru stundum einir á vakt og yfirferðin á svæðunum óheyrilega mikil. Þetta þekki ég af eigin raun úr mínu kjördæmi þegar jafnvel tveir hafa verið á vakt og annar veikist, sá sem eftir stendur er þá bæði á bakvakt og hinni hefðbundnu vakt.

Lögreglumenn fara líka oft einir í útköll sem í upphafi virðast einföld og venjubundin, en þegar á hólminn er komið snúast upp í andhverfu sína. Allir sjá að við verðum að bregðast við þessu. Þetta hefur áhrif á öryggi lögreglumanna og um leið okkar borgaranna.

Í skýrslunni kemur fram að einn af mælikvörðum íbúa er varðar öryggiskennd sé að lögreglan sé sýnileg og til staðar þegar íbúar þurfa á henni að halda. Eitt af nýmælunum sem lagt er til er að stefna skuli að því að taka upp rafræna skráningu á viðbragðshraða lögreglu í útköllum og tímalengd útkalla með það að markmiði að setja lögreglunni ákveðin lágmarksviðmið. Einnig er talað um að með fjölgun lögreglumanna sé hægt að færa afgreiðslu minni háttar mála í auknum mæli til almennrar lögreglu sem getur rannsakað og afgreitt þau sem minnki líkur á tvíverknaði og auki skilvirkni og málshraða.

Samfélagið krefst þess í auknum mæli að rannsóknir séu skjótar og góðar án þess að það komi niður á öðrum málum og að árangurinn sé um leið sýnilegur.

Í tæknimálum er rætt um nútímalega samskipta- og upplýsingatækni við stjórn lögreglunnar sem geri þeim kleift að ljúka verkefnum á vettvangi með skýrslugerðum í útkallstæki. Þetta er áhugaverður punktur og örugglega vel til þess fallinn að stytta ferli mála.

Mikil áhersla er lögð á tengsl við íbúa nær löggæslu eins og hér hefur komið fram og þau tapist ekki við fækkun umdæmanna. Tengslin geri það að verkum að lögreglan fái frekar upplýsingar um þau mál er hana varða. Mér þykir ánægjulegt að þess sé sérstaklega getið að sveitarfélögin séu í góðum tengslum við lögregluna, enda nauðsynlegt margra hluta vegna.

Það er ævinlega þannig, virðulegi forseti, að í jafn víðtækum málaflokki og heyrir undir lögregluna krefjast mörg samfélagsleg verkefni þess að aðgerðir íbúa og lögreglu séu samhentar og leiddar eru líkur að því að árangur af slíku samstarfi sé líklegri sé ríkjandi jákvæðni og traust í garð lögreglunnar til staðar.

Þegar við tölum um bætta löggæslu skiptir menntun lögreglumanna miklu máli. Menntunin þarf að vera í takt við þær kröfur um almannaöryggi sem gerðar eru á hverjum tíma. Eitt af því sem rætt er í skýrslunni er að stefna skuli að því að fram fari frammistöðumat hjá embættunum sem hvert og eitt geri síðan áætlun um símenntun fyrir hvern starfsmann í samvinnu við lögregluskólann. Ég er ánægð að sjá að lögð er til lenging á grunnnáminu á ný og að námið sé endurskoðað með tilliti til allra þeirra fjölbreyttu starfa sem bíða lögreglumanna.

Virðulegi forseti. Þar sem ég bý á svæði þar sem virkja hefur þurft almannavarnir ítrekað vegna hættuástands tek ég undir það sjónarmið sem kemur fram að hraða þurfi vinnu við sértæka og almenna viðbragðsáætlunargerð, hvort heldur er vegna ógnar af völdum náttúrunnar, tæknilegra bilana eða af mannavöldum, í samstarfi við sveitarfélögin og aðra viðbragðsaðila. Það er ekki ásættanlegt að íbúar víðs vegar um hið dreifbýla land okkar upplifi hættu vegna þess að rafmagn og fjarskipti virka ekki sem skyldi. (Forseti hringir.) Ég lít svo á að löggæslan sé hluti af velferðarþjónustunni og segi því að nú sé það okkar og þeirra sem við taka, sama hvar í flokki þeir standa, (Forseti hringir.) sama hver verður innanríkisráðherra, að sjá til þess að tekið verði mið af þessum sáttmála og nægjanlegir fjármunir verði settir í málaflokkinn þannig að lögreglan (Forseti hringir.) geti sinnt því mikilvæga þjónustu- og öryggishlutverki sem við ætlumst til að hún geri.