141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar.

687. mál
[14:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir umræðuna. Ég vil þakka ráðherra og þeim sem unnu skýrsluna fyrir framtakið, fyrir að við skulum þó komin á þennan stað. Einnig vil ég þakka formanni allsherjar- og menntamálanefndar og nefndinni allri fyrir að hafa skilað því á sínum tíma út úr nefndinni. Þannig er oft að góðir hlutir gerast hægt og eins og gengur þurfti tvær atrennur til að koma málinu í gegnum þingið, en það hafðist þegar allir höfðu áttað sig á því að hægt væri að ná mikilli og góðri samstöðu um það. Þar af leiðandi erum við komin á þennan stað og því ber að sjálfsögðu að fagna.

Við verðum líka að horfast í augu við að sú skýrsla er mjög góður áfangi á þeirri leið að skrifa löggæsluáætlun fyrir Ísland. Skýrslan er fyrsta skrefið í þá átt og kannski stærsta skrefið sem þurfti að taka til að hefja þá vinnu. Ég lít svo á að við hljótum í framhaldinu að halda áfram og jafnvel fela nefndinni sem skilaði skýrslunni áframhaldandi verkefni sem er að skila löggæsluáætlun fyrir Ísland eins og upphaflega stóð til.

Það er margt mjög gott dregið fram í skýrslunni. Það er verið að opna augu okkar fyrir stöðunni og fyrir forgangsatriðum. Við vitum að lögreglan nýtur mikils trausts og virðingar í samfélaginu og er mikilvægt að hún fái tækifæri, tíma, fjármuni og tæki og tól til þess að standa undir þeim væntingum sem allt samfélagið gerir til hennar.

Við viljum líka í því samhengi horfa á aðbúnað lögreglumanna og tryggja að hann sé ætíð sem allra bestur, bæði hvað varðar almennan aðbúnað og öryggi þeirra. Það gerum við meðal annars með því að fjölga lögreglumönnum, eins og hér er lagt til sem eitt af forgangsatriðunum.

Skýrslan er mjög greinargóð. Ég vil þakka sérstaklega fyrir hversu hrein og bein hún er í rauninni varðandi þau málefni sem þarf að taka á og hver næstu skref eiga að vera að mati hópsins sem skilaði skýrslunni. Hér er farið ágætlega yfir stefnu, markmið, forgangsröðun, löggæsluáætlun o.fl.

Það er okkur öllum mjög mikilvægt að ein af þeim stofnunum sem nýtur hvað mestrar virðingar og stöðu í samfélaginu fái bæði tækjabúnað og fjármuni til að halda þeirri stöðu sinni. Þar af leiðandi tek ég undir orð þeirra sem hafa talað, að þetta sé vegvísir til þeirra sem munu sitja næstu fjögur ár á Alþingi til að fjalla um málefni lögreglunnar. Það er mikilvægt að ekki verði horft fram hjá þeim staðreyndum sem eru taldar upp í skýrslunni, en einna mikilvægast er að vinnan haldi áfram þannig að við stöndum uppi með heildstætt plagg á endanum sem tekur á öllu því sem er verið að leggja til hér.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns gerast góðir hlutir oft hægt. Þar af leiðandi er í raun ekkert óeðlilegt að þetta skref sé stigið núna en vinnan haldi svo áfram. Ég vil þakka ráðherra aftur fyrir að hafa beitt sér fyrir skýrslugerðinni og fyrir því að við kæmumst á þennan stað í málinu.

Ég ætla að leyfa mér að segja að við verðum líka að hlusta á lögregluna þegar hún kallar eftir frekari atriðum en eru nefnd hér, t.d. varðandi auknar heimildir, möguleika á að starfa í betra sambandi við lögregluembætti á Norðurlöndum og í öðrum löndum sem við eigum gott samstarf við. Þegar öllu er á botninn hvolft held ég að við séum öll að tala um sama hlutinn, þ.e. að gera lögregluna sterkari og betur í stakk búna til að takast á við þau verkefni sem henni er ætlað samkvæmt lögum og sem við borgararnir væntum af henni.