141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:16]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni í því atriði. Mér hefur fundist í ljósi umræðunnar síðustu daga — það var nú hv. þm. Magnús Orri Schram sem benti einmitt á það að Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki hefði verið í lófa lagið að breyta stjórnarskránni á því tímabili í anda þess sem þeir tveir flokkar höfðu verið sammála um. En það voru ekki bara þeir tveir. Samfylkingin var aðili að auðlindaákvæðinu á sínum tíma í auðlindanefndinni árið 2000. Þegar maður lítur til baka finnst manni mjög sérkennilegt að það hafi ekki verið klárað, ekki síst í ljósi þess að nú kemur Samfylkingin fram með allt aðra útgáfu og finnst alveg sjálfsagt að hún verði keyrð hér í gegn, á þessu ákvæði.

Ég vil spyrja hv. þingmann út í breytingarákvæði í seinna andsvari mínu. Það er rétt, frú forseti, að hv. þingmaður hefur verið mjög duglegur og haft mikinn áhuga á stjórnarskránni og hann hefur lagt fram margar tillögur meðal annars til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á liðnu missiri. Er þingmanninum kunnugt um að þær tillögur hafi verið teknar til efnislegrar umræðu? Með þær hugmyndir sem hv. þingmaður hefur haft, meðal annars um breytingar á 79. gr., breytingarákvæðisgreininni, og með þær hugmyndir sem hann kynnti í síðustu ræðu — hefur verið óskað eftir að taka þá tillögu til umfjöllunar til að reyna að ná sátt í þinginu til að reyna að finna leiðir út úr því ófremdarástandi sem hér er? Ég vil spyrja hv. þingmann hvort leitað hafi verið til hans um viðræður eða hvort hann þekki til þess að formenn flokkanna hafi tekið slíka tillögu til formlegrar umræðu til að reyna að leita sátta.