141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þann 21. febrúar 2012 skilaði ég umsögn um drög stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þegar ég sé svo vinnuna sem kemur frá þeirri nefnd er mér efst í huga að þeir hafi bara ekkert lesið þá umsögn sem er upp á 40 síður. Ég gerði athugasemdir þar við nánast hverja einustu grein, sumar litlar og aðrar miklar. Ekkert tillit hefur verið tekið til þess eða mið tekið af því, samt tel ég að hugmyndir mínar til dæmis um Lögréttu séu á margan hátt miklu skynsamlegri en hugmyndir stjórnlagaráðs þar sem Alþingi átti að kjósa einhverja fimm menn. Engin skilyrði voru um menntun eða að þeir kynnu lögfræði eða nokkurn skapaðan hlut, jafnvel hefðu þingmenn getað verið í Lögréttu sem ættu að fara yfir frumvörp á Alþingi samkvæmt beiðni ákveðins fjölda þingmanna.

Ég vildi að fullskipaður Hæstiréttur myndaði Lögréttu. Í fyrsta lagi vantar alveg ákvæði um Hæstarétt í núgildandi stjórnarskrá, það finnst mér nú eiginlega brýnast að setja inn. Ekki var hlustað á þetta. Ég hef ekki fengið nein viðbrögð við því hvort þetta sé gott eða slæmt, ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég vona að vinnubrögðin hafi ekki alls staðar verið svona.

En ég benti líka á það í fjölda atriða, 80 greinum, að krafist er atbeina Alþingis, með lögum skal tryggja þetta og hitt. Ef Alþingi gerir ekki neitt sýnist mér að stjórnarskráin sé að því leyti ekki gild, ekki virk. Ég benti í þeim tilvikum á miklu einfaldara orðalag í flestum tilfellum, en það var heldur ekki tekið upp, bara orðalagsbreyting. Til dæmis „frelsi fjölmiðla skal tryggt með lögum“ þá þarf Alþingi að gera eitthvað, í staðinn fyrir að segja „fjölmiðlar eru frjálsir“ sem er þá atriði sem stjórnarskráin segir nákvæmlega til um.