141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:54]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta svar, meira að segja það að á síðari hluta ræðutíma síns komst hann út úr málþófsstellingunum. Svarið virðist vera það að honum er svo annt um að tryggja einkaeignarrétt á grunnvatni að þess vegna geti hann ekki fallist á orðalag eins og þarna er viðhaft upp úr hæstaréttardómnum, um venjulega hagnýtingu jarðar. Það er sérkennilegt og þingmaðurinn þarf þá að rökstyðja það fyrir okkur. Sumir hafa talið að 1998-lögin tryggðu þennan einkaeignarrétt. Það er ekki. Hæstiréttur komst að því — ég get ekki nefnt árið en ég skal sækja það fyrir hv. þingmann og sýna honum það — í sérstökum dómi sem ég nefndi áðan að svona væri þetta ekki, heldur næðu eignarráð landeigandans til hinnar venjulegu hagnýtingar, þar með ekki þeirrar hagnýtingar sem er óvenjuleg, t.d. djúpborunarhagnýtingar, ekki til þeirrar hagnýtingar jarðvegs sem felst í því að bora göng og taka jarðveginn út úr þeim.

Þetta er túlkun Hæstaréttar og með tillögu þingflokksformannanna og fleiru er meiningin að festa þá túlkun laganna í stjórnarskrá til að firra því að menn geti í krafti venjulegs eignarréttar á landi tekið sér eignarráð sem varða hagsmuni þjóðarinnar með miklu afdrifaríkari hætti en nokkuð það annað sem hægt er að gera ef maður á jörð. Það hygg ég að hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson þekki ágætlega.

Nei, það er ekki svo, forseti, að ég sé garantíið fyrir því hvernig þetta lítur út. Það getur hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson hins vegar sótt sér í þá umfjöllun sem þegar hefur verið um þetta ákvæði frá stjórnlaganefndinni til stjórnlagaráðsins og til hinnar miklu vinnu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. (Forseti hringir.) Þar liggja fyrir svörin við þeim spurningum sem hv. þingmaður spyr mig.