141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:56]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú má vel vera að í þeim leik að setja hér upp eitthvert málþófsleikrit hafi hv. þingmaður ruglast. Það er hv. þingmaður sem er að spyrja mig, en sá sem hér stendur ekki að spyrja hv. þingmann. Ég vona að hv. þingmaður líti ekki á þessi andsvör okkar sem málþóf, (MÁ: Alls ekki.) ekki frekar en andsvör okkar hv. þm. Péturs H. Blöndals. Hér erum við að skiptast á skoðunum um eitthvað sem skiptir máli.

Við hv. þingmaður erum sannarlega ósammála um margt. Það sem kemur mér á óvart, þar sem hann er í jafnaðarmannaflokki sósíaldemókrata, er að hann skuli ekki geta sætt sig við að hér á landi gildi sömu réttindi um vatn og til að mynda í hinu norræna ríki Danmörku, eins og ég nefndi í ræðu minni. Mér kemur á óvart að við getum ekki sætt okkur við að setja almennar leikreglur um hvernig á að tryggja almannarétt og almannagæði. Það kemur mér á óvart að ekki sé hægt að gera það.

Um almenn hagnýt not af landi, vatni (MÁ: Venjulega hagnýtingu.) eða eitthvað slíkt hef ég það að segja að ef viðkomandi hefði fengið bor og borað til að selja efnið hefði það sennilega talist hagnýting en vegna þess að það var afrakstur einhvers annars aðila að bora göng þótti það ekki eðlileg hagnýting. Ég tek undir það.

Ég veit að hv. þingmaður getur ekki svarað mér en ég varpa þessu þá bara fram í umræðuna: Það eru til aðilar sem þurfa að bora 10 metra niður í jörðina eftir köldu vatni eða heitu. Það eru til aðilar sem þurfa að bora 100 metra ofan í jörðina eftir heitu eða köldu. Það eru til borholur á Íslandi hjá einkaaðilum sem eru 1.000 metra djúpar og þær hafa jafnvel ekki skilað neinu vatni og þeir velta fyrir sér að bora 500 metra til viðbótar. Hvað þýðir þetta ákvæði þingflokksformannanna ef þeir bora 1.500 metra? Er það þá komið yfir tiltekna dýpt til venjulegra hagnýtra nota á þessari bújörð? Hver er skilgreining hv. þingflokksformanna og hv. þingmanns á tiltekinni dýpt? Ég held að þarna séum við komin út á hálan ís. (MÁ: Hver er skilgreiningin á mjólk?) (Gripið fram í.)