141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:59]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég held að í þessum andsvörum sem fóru hér á undan hafi kristallast sá hugmyndafræðilegi vandi sem við erum í hér í þinginu, við höfum ekki farið í þá vinnu að setjast í sameiningu yfir það með hvaða hætti eigi að breyta stjórnarskránni, heldur höfum við unnið það á allt annan hátt en gert hefur verið hingað til. Síðan hefur verið reynt að keyra mál í gegnum þingið án þess að reyna að ná samstöðu um það innan þessara veggja og þess vegna er málið allt í hnút, búið að vera í hnút og verður áfram í hnút. Sú umræða sem fór fram um skilgreininguna á því hver eru almenn not eða hefðbundin not, eins og hv. þingmenn fóru yfir varðandi réttindi yfir vatni, er dæmi um hnútinn. Þetta eru engin smámál sem er hægt að tala um á léttvægan hátt eins og mér þótti hv. þm. Mörður Árnason gera áðan. Eignarrétturinn er friðhelgur og við eigum að bera virðingu fyrir honum.

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til stjórnarskipunarlaga og við erum að ræða nýja stjórnarskipunarlagafrumvarpið, þ.e. hið minna sem er flutt af hv. þm. Árna Páli Árnasyni og hæstv. ráðherra Katrínu Jakobsdóttur ásamt hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, þar sem fjallað er um að bara verði gerðar breytingar á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar. Það er rökstutt með þeim hætti að þetta verði ákvæði um stundarsakir og þetta frumvarp sé flutt í þeim tilgangi að ná sem víðtækastri sátt á Alþingi um framhald og lyktir þeirrar víðtæku endurskoðunar stjórnarskrárinnar sem staðið hefur undanfarin ár. Þess vegna telja tillöguflytjendur nauðsynlegt að setja nýtt bráðabirgðaákvæði inn í stjórnarskrána um að hægt sé að breyta henni á einhvern sérstakan hátt fram til 30. apríl 2017. Það er hugsunin á bak við frumvarpið eins og það kemur frá tillöguflytjendum og ég kaupi ekki alveg þann rökstuðning, frú forseti, að það þurfi eitthvert sérstakt breytingarákvæði inn í stjórnarskrána, eitthvert bráðabirgðabreytingarákvæði. Ég skil ekki alveg rökstuðninginn fyrir því vegna þess að breytingarákvæði stjórnarskrárinnar eins og það er hefur nýst okkur hingað til. Þrátt fyrir að ég hafi eingöngu fengið að halda eina ræðu í þessu þingi um stóra málið um breytingar á stjórnarskránni valdi ég mér við það tilefni að tala nær eingöngu um breytingarákvæði stjórnarskrárinnar vegna þess að ég tel að það sé eitt mikilvægasta ákvæði núverandi stjórnarskrár.

Mig langar í stuttu máli að fara aðeins yfir það hvers vegna ég tel það vera. Núverandi ákvæði stjórnarskrárinnar um það hvernig á að breyta stjórnarskrá er á þann veg að tvö þing þurfa að samþykkja stjórnarskrárbreytingar. Meginhugsunin á bak við það er að það er erfitt að breyta stjórnarskránni. Ástæðan fyrir því að menn, sem byggja lýðræðisríki þar sem er í gildi stjórnarskrá, telja að það sé heppilegt að það sé erfitt að breyta stjórnarskránni, þ.e. rökin á bak við það eru þau að þær kenningar hafa verið ríkjandi í stjórnskipunarrétti að það eigi ekki að vera auðvelt að breyta stjórnarskrá. Ég er sammála því grundvallarsjónarmiði.

Þau ríki sem búa við stjórnarskrárbundið lýðræði og hafa skráða stjórnarskrá eru jafnan með þannig reglur að það er mjög vandað til þess með hvaða hætti menn breyta stjórnarskrá. Ákvæðin eru stíf og það er sjaldgæft að miklar breytingar séu gerðar í einu á stjórnarskránni. Rökin að baki því að hafa ákvæðin svona stíf eru þau að reglunum er ætlað að stuðla að því að það náist samstaða og sátt meðal þjóðarinnar og löggjafans um þær breytingar sem ætlunin er að gera á stjórnarskrá. Þetta er gert vegna þess að stjórnarskrá hvers ríkis er grundvöllur undir allt annað, grundvöllurinn undir samfélaginu og grundvöllurinn undir annarri löggjöf sem sett er. Þess vegna er mikilvægt að stjórnarskrá sé stöðug þannig að fólk viti hvar það stendur, það viti að minnsta kosti hvar grunnurinn er þó að almenn löggjöf geti breyst í takt við tímana. Þetta er ástæðan fyrir því að lýðræðisríki sem hafa skráða stjórnarskrá eru jafnan með þannig reglur að það er erfitt að breyta henni. Þess vegna tel ég rétt að það eigi að vera erfitt að breyta stjórnarskránni og er mjög íhaldssöm þegar kemur að því að ræða það að breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar.

Stjórnarskrár eru einnig að mínu mati oft betri eftir því sem þær eru styttri. Stjórnarskráin sem er í gildi í landinu, og ég hef ásamt öllum öðrum þingmönnum undirritað drengskaparheit að, er ekki löng. Hún er tiltölulega stutt og skýr að flestu leyti. Ég tel að hún hafi gefist okkur ágætlega og ég tel engin efnisleg rök fyrir þeim fullyrðingum að stjórnarskráin hafi að einhverju leyti orðið til þess að hér féllu íslensku bankarnir. Ég tel ekki neitt samhengi þar á milli og hafna því þess vegna að það sé brýn nauðsyn á því að endurskoða stjórnarskrána frá grunni.

Stutt og skýr stjórnarskrá hefur þann kost að hún er skiljanleg flestöllum og hefur þann ótvíræða kost að það er auðvelt að fletta upp í henni og auðvelt að hafa hana með sér hvert sem maður fer, eins og fjölmargir þingmenn gera. Maður hefur orðið vitni að því að þeir eru með litla stjórnarskrárkverið með sér. Í þessari umræðu hefur verið fullyrt, í fjölmiðlum og víðast hvar, að ekki hafi tekist í gegnum tíðina að breyta stjórnarskránni á nokkurn hátt og það sé vegna þess að þingið sé svo íhaldssamt og sjálfstæðismenn alltaf svo erfiðir þegar kemur að því að ræða um breytingar á stjórnarskránni. Ef það er rétt að sjálfstæðismenn séu þungir í spori þegar á að fara að breyta stjórnarskránni er ég bara ánægð með það vegna þess að það er þá í samræmi við þau gildi sem almennt eru ríkjandi í stjórnskipunarrétti, að það eigi ekki að vera auðvelt að breyta stjórnarskrá. Þá er ég stolt af því að vera íhaldssöm hvað þetta varðar vegna þess að stjórnarskráin er grunnur og kjölfestan í því sem við gerum í þinginu.

Afleiðingarnar af því að hafa breytingarákvæðið jafnstíft og það er í okkar stjórnarskrá hafa verið þær að menn hafa þurft að setjast niður saman, finna sameiginlegar leiðir og lausn á því með hvaða hætti góð stjórnarskrá getur orðið betri. Það hefur skilað árangri, það vinnulag tel ég miklum mun betra en það vinnulag sem menn hafa tíðkað hér á þessu kjörtímabili og skilað meiri árangri vegna þess að stjórnarskrá á ekki að taka kollsteypur varðandi breytingar í einu lagi.

Það að það þurfi að boða til kosninga á milli þess sem málið er tekið fyrir og síðan samþykkt í síðari umræðu hefur veitt Alþingi aðhald. Það aðhald hefur þýtt það hingað til að alþingismenn hafa ekki hlaupið til eftir því hvaða stemning er í samfélaginu þann daginn, hvernig skoðanakannanir mæla að menn hafi viðhorf til ákveðinna hluta þann daginn, heldur hafa menn tekið yfirvegaðar ákvarðanir um breytingar.

Þegar ég hlusta á umræðuna hér í dag og þau andsvör sem birtust okkur rétt í þessu sé ég að umræðan er alls ekki yfirveguð. Umræða um auðlindaákvæði í stjórnarskrá er ekki yfirveguð. Menn í salnum töluðu um vatnsréttindi og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kallaði eftir því að menn skilgreindu hvað átt væri við með þeim og hvað menn sem flyttu þetta breytingarákvæði við það frumvarp sem við ræðum ættu við. Hvað þýðir það gagnvart nýtanleika vatns, hve djúpt mætti bora? Þeirri áskorun var varpað fram hér að það þyrfti að skilgreina þetta. Þá kallaði hv. þm. Mörður Árnason fram í: Hver er skilgreiningin á mjólk? Ég sé ekki, frú forseti, að þetta sé yfirveguð umræða og ég sé ekki að svona umræða skili nokkrum sköpuðum hlut. Hún skilar íslensku þjóðinni varla nokkrum árangri og þetta sýnir mér enn og aftur á hve miklum villigötum málsmeðferðin um þetta allt saman hér er. Þetta er sjálf stjórnarskráin sem við erum að tala um og þegar af þeirri ástæðu eiga menn að vanda sig sérstaklega vel.

Frú forseti. Ég held að mér sé óhætt að segja að það séu tvö ár síðan ég byrjaði að kalla eftir því í forsætisnefnd að við fengjum tímasetta áætlun um það með hvaða hætti þeir sem fara með verkstjórnina, og höfðu mikið fyrir því að komast yfir hana, sæju fyrir sér framgang málsins í þinginu. Það var orðið ljóst að stjórnarskrármálið kæmi inn í þingið áður en kjörtímabilið yrði á enda vegna yfirlýsinga frá ríkisstjórnarflokkunum. Lengi framan af kjörtímabili kölluðum við eftir því og veltum fyrir okkur hvenær Alþingi fengi málið til umræðu, hvenær alþingismenn sem fara með stjórnskipunarvaldið fengju að segja sínar skoðanir á stjórnarskránni. Við þekkjum hversu seint málið kom inn í þingið og hversu lítill tími hefur verið gefinn til umræðu um þetta mál eins og ég vitnaði til áðan. Ég hef áður haldið eina ræðu um stóra málið. Ég kallaði eftir því að eitthvert slíkt plan yrði lagt fram. Það var aldrei gert. Ég kallaði eftir því í forsætisnefnd og það var kallað eftir því frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en það plan kom aldrei.

Síðan gerist það eftir áramótin að málið er sent til umsagnar í Feneyjanefndinni og ef það hefði legið fyrr fyrir hefði hugsanlega verið hægt að tímasetja betur og halda betur utan um þetta verkefni. Hefðu menn vitað að þeir ætluðu til dæmis að senda þetta inn í Feneyjanefndina hefði kannski verið hægt að áætla hvenær málið yrði síðan tækt til umræðu í þinginu. Í staðinn erum við með það hér á þeim handahlaupum sem það hefur verið frá því að það kom fram. Þetta eru vinnubrögð sem ég skil einfaldlega ekki. Ég held að menn hafi ekki áttað sig á því út í hvað þeir voru að fara, það er mín tilfinning, fyrst það kom aldrei nein áætlun um það hvað menn ætluðu að gera, hvernig þeir ætluðu að gera það og í hvaða röð. Þá birtist það mér þannig að þetta hafi einfaldlega verið tilviljunum háð. Af því hef ég enn meiri áhyggjur, að menn skuli fara þannig með breytingar á stjórnarskránni, að menn skuli fara þannig með svo miklar breytingar á stjórnarskránni að það má kalla það allsherjarendurskoðun. Það að koma þannig fram í þessu stóra máli finnst mér ekki góð vinnubrögð.

Frú forseti. Stóra málið er ekki undir hér í þessu frumvarpi sem flutt er en hins vegar kemur allt stóra málið inn í þó nokkuð breyttri mynd með breytingartillögu frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur sem ég ætla að ræða aðeins á eftir ef tími vinnst til.

Frú forseti. Það varð talsverð umfjöllun um breytingarákvæðið og hvernig það leit allt öðruvísi út í stóra málinu sem lagt var fram. Það bárust margar athugasemdir sem gefur að líta yfirlit yfir meðal annars í nefndaráliti meiri hlutans. Þar komu fram vangaveltur frá meiri hlutanum um það hvernig breytingarákvæðið ætti hugsanlega að vera. Þar komu fram hugmyndir um að það ættu að vera tvær aðferðir við að breyta stjórnarskrám, önnur hvað varðar stjórnarskrána að undanskildum mannréttindakaflanum og hin aðferðin varðandi mannréttindakaflann sérstaklega. Það er sem betur fer ekki tillagan sem er lögð fram í þessu frumvarpi sem við ræðum en engu að síður, ef það verður samþykkt að búa til bráðabirgðaákvæði um stjórnarskrárbreytingar, erum við samt komin með tvær aðferðir til að breyta stjórnarskrá. Og mér finnst það miður. Þó að sú tillaga sem hér liggur fyrir sé skárri en það að vera með varanlega tvær aðferðir við að breyta stjórnarskrá, þar sem köflum stjórnarskrárinnar er mismunað þannig að draga megi þá ályktun að það sé a-hluti stjórnarskrár og b-hluti stjórnarskrár þar sem annar hlutinn er merkilegri en hinn, er hún þó ekki meira en það. Því ber auðvitað að fagna að sú hugsun hafi ekki ratað inn í það frumvarp sem við hér ræðum en auðvitað gæti það alveg komið inn í stærra máli sem þá væri hægt að fara með í gegn í krafti bráðabirgðaákvæðisins sem hér er lagt til að verði samþykkt. Það getur sem sagt orðið einfalt að breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar varanlega með aðferðafræði bráðabirgðaákvæðisins.

Það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga við umræðuna á þessu máli en margir ágætir þingmenn hafa blandað sér í umræðuna og við sjáum að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur fram breytingartillögu á frumvarpinu á þskj. 1270. Þar er gert ráð fyrir því að í staðinn fyrir að hér verði til nýtt ákvæði um stundarsakir á þann veg sem hv. þingmenn Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Steingrímsson leggja til komi inn ákvæði þar sem gert er ráð fyrir að 2/3 hlutar Alþingis samþykki frumvarp til stjórnarskipunarlaga og þá fari það í þjóðaratkvæðagreiðslu og hún skuli fara fram innan tiltekins tíma. Það er tekið fram að til þess að frumvarpið teljist samþykkt þurfi það að hafa hlotið meiri hluta gildra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki 2/3 eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu sem þrír forustumenn flokka leggja fram. Í breytingartillögunni er jafnframt gert ráð fyrir lágmarksþátttöku í kosningunum, að það séu 25 af hundraði allra kosningarbærra manna sem taka þátt. Lágmarkinu, að hafa bara 25 af hundraði, sem þátttökuþröskuldi er mótmælt í nefndarálitinu af einum nefndarmanni þar sem hún gerir fyrirvara við það sérstaklega. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir gerir athugasemd við það að tillögunni frá forustumönnunum þrem sé breytt á þennan hátt. Ég skil þá ekki hvernig sá þingmaður getur stutt þessa breytingartillögu af því að þetta er að því er mér sýnist megininntakið í frumvarpinu sem lagt er fram. Þar kemur fram varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna að það þurfi 3/5 hluta greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni til að það teljist samþykkt og síðan skal það staðfest af forseta Íslands innan tveggja vikna. Í breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar er ekki gert ráð fyrir slíku, heldur því að til þess að frumvarpið teljist samþykkt þurfi það að hafa hlotið meiri hluta gildra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni, þó minnst atkvæði 25 af hundraði allra kosningarbærra manna.

Þarna er þó verið að reyna að setja inn þröskuld, þarna er sýnd viðleitni í þá átt að það sé stíf regla um að það sé þó einhver lágmarksþátttaka í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég fagna þeirri hugsun en skil ekki hvernig einstakir nefndarmenn skrifa upp á nefndarálitið þegar þeir eru ósammála megininntaki breytinganna sem lagðar eru til og eru flutningsmenn breytingartillögunnar.

Þetta er afskaplega sérkennilegt, frú forseti.

Aðrir þingmenn hafa jafnframt fleygt fram hugmyndum um breytingarákvæði. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur velt því upp í umræðunni hvort það eigi að hafa þröskuldana þannig að samþykki Alþingi frumvarp til stjórnarskipunarlaga með minnst 40 atkvæðum alþingismanna verði gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu, hún fari fram innan ákveðins tíma og það þurfi 5/10 allra kosningarbærra manna til að samþykkja slíka breytingu. Þá telst hún gild stjórnarskipunarlög þegar forseti Íslands hefur undirritað, en ef ekki skuli nýtt Alþingi að loknum næstu almennu alþingiskosningum taka breytinguna til atkvæða. Við heyrum að það er talsverður munur á kröfunum gagnvart þátttöku í kosningunum og jafnframt gagnvart stuðningi við málið á þingi. Hér erum við því að tala um umtalsvert stífari kröfur og stífara breytingarákvæði en við sjáum bæði í frumvarpinu og breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar. Það er hugmynd sem þingmenn gætu sest yfir og rætt en mér skilst að engar slíkar umræður standi yfir.

Það er mjög mikilvægt að gera þær athugasemdir við tillögu nefndarinnar að ekki sé krafist ákveðinnar viðveru og ákveðins atkvæðafjölda í þinginu. Það verður að vera innbyggt í tillögu sem á að vera hægt að ræða um, ef maður er þess fylgjandi að ræða breytingartillögu við breytingarákvæði stjórnarskrár á annað borð. Svo er það hitt, að þessi breytingartillaga frá nefndinni þýðir jafnframt að það er hægt að velja á milli tveggja aðferða við það að breyta stjórnarskránni.

Nú er ég alveg hætt að skilja hugmyndafræðina að baki þessum tillöguflutningi öllum vegna þess að hér erum við aftur komin í það sem ég talaði um fyrr í ræðu minni þar sem ég gagnrýndi stóra frumvarpið og breytingartillöguna sem kom fram við breytingarákvæðið um að það ættu að vera tvær deildir í stjórnarskránni eftir því hvaða kafla væri verið að breyta. Hér er sú hugsun komin inn án þess að skilgreina hvenær hvor aðferð á að vera í notkun. Það er ekki til að einfalda hlutina.

Svo er enn ein tillaga um stjórnarskrárbreytingar, breytingartillaga hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur. Miðað við tillögu þingmannsins ætti það þá að verða 115. gr. Hér kemur fram að þingmaðurinn telur best að hafa þetta þannig að þegar Alþingi hafi samþykkt frumvarp til laga um breytingu á stjórnarskrá með 3/5 hlutum greiddra atkvæða skuli það borið undir atkvæði allra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, þ.e. sama hlutfall og í tillögu hv. þm. Árna Páls Árnasonar og félaga. Engin krafa er um lágmark atkvæðagreiðenda í þingsalnum. Svo er sama tímasetning á þjóðaratkvæðagreiðslunni en síðan er gert ráð fyrir því í tillögu Margrétar Tryggvadóttur að verði frumvarpið samþykkt með 3/5 hlutum greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni skuli það staðfest af forseta Íslands innan tveggja vikna og teljist þá gild stjórnarskipunarlög. Hér er ekki gerð nein krafa um lágmarksþátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Þegar ég flutti ræðu mína um stóra málið um stjórnarskipunarlögin, heildarbreytingarnar, og eyddi lunganum af ræðu minni í að ræða um breytingarákvæðið man ég að hv. téður þingmaður, Margrét Tryggvadóttir, sem flytur þessa tillögu kom í andsvar við mig og var að velta fyrir sér þessum hugmyndum og hugarfari sem ég hef gagnvart breytingartillögum. Mér þótti hv. þingmaður skilja mjög vel að það þyrfti að vera þröskuldur og að það ætti að vera erfitt að breyta stjórnarskránni. Þess vegna kemur mér svolítið á óvart að sjá í breytingartillögu frá þeim hv. þingmanni að breytingarákvæði skuli í hennar hugmyndafræði vera með þessum hætti. Það veldur mér ákveðnum vonbrigðum, frú forseti.

Tíminn styttist og það er erfitt að velja hvað ég næ að tala um. Varðandi breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur að öðru leyti verður að segja, frú forseti, að komi hún til atkvæða í þinginu og verði hún samþykkt erum við allt í einu í þeirri stöðu að búið verður að samþykkja heildarbreytingar á stjórnarskránni. Svo munu fara fram alþingiskosningar og nýtt þing koma saman sem þarf þá að taka afstöðu til þess hvort það vilji staðfesta þær breytingar. Verði það raunin sitjum við uppi með stjórnarskrá án nokkurrar greinargerðar og án þess að nokkur útskýring sé á því hvað þessi stjórnarskrá þýðir. Ég verð að segja að þrátt fyrir að það megi hrósa hv. þingmanni fyrir hugvitssemina, að leggja þetta mál fram í heild sinni sem breytingartillögu, finnst mér það ekki fara saman við það að hv. þm. Margrét Tryggvadóttir hefur haft mikinn áhuga á því að breyta stjórnarskránni og hefur sagt í ræðustól að hún hafi mikla löngun til þess að vanda til verka o.s.frv. Mér finnst þessi breytingartillaga þingmannsins ganga algerlega í berhögg við þau orð. Við þekkjum það að í þessum heildarbreytingum eru fjölmargar tillögur og stóra málinu var skipt. Þó að það sé ekki efnislega að öllu leyti sambærilegt breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur var stóra málinu skipt upp á milli nefnda Alþingis. Nefndirnar fjölluðu um þau ákvæði er vörðuðu starfssvið nefndarinnar á að giska.

Ég sit í velferðarnefnd og þar var fjallað um ýmis ákvæði, sérstaklega þau er varða félagsleg réttindi. Mannréttindi hafa verið skilgreind að tvennu leyti, annars vegar sem réttindi sem eru eldri og við þekkjum vel og hafa verið í stjórnarskrám ríkja í lengri tíma og hins vegar félagsleg réttindi sem eru ekki jafn vel skilgreind og hefur í rauninni ekki verið látið reyna á í nægjanlega miklum mæli. Þess vegna er enn mikilvægara að skilgreiningar á borgaralegu réttindunum, slíkum ákvæðum í stjórnarskrá, séu til.

Af lestri mannréttindakafla breytingartillögu Margrétar Tryggvadóttur við stjórnarskipunarlögin er erfitt að átta sig á því hvernig á að túlka ýmis ákvæði sem þar koma fram. Kaflinn inniheldur ýmis réttindi, félagsleg réttindi, efnahagsleg réttindi og svokölluð þriðju kynslóðar réttindi sem hafa í raun ekki skýra merkingu vegna þess að löggjöf og dómstólar eiga eftir að gefa þá merkingu. Í kaflanum eins og hann liggur fyrir í breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur er ekki gerður nægilega skýr greinarmunur á þessum flokkum mannréttinda, þ.e. hinum hefðbundnu, borgaralegu og stjórnmálalegu réttindum annars vegar og hins vegar þessum þriðju kynslóðar réttindum. Þess vegna hefði verið, og er, algjörlega nauðsynlegt að stjórnarskrá sem á að fela í sér slík ákvæði hafi greinargerð þannig að allir landsmenn geti áttað sig á því hvað stjórnarskráin þýðir í raun.

Síðan sé ég að í 37. gr. í breytingartillögu þingmannsins, í mannréttindakaflanum sýnist mér, er ákvæði um dýravernd. Mér finnst það afskaplega sérkennilegt. Mér þykir vænt um dýr, ég á rætur í samfélagi þar sem dýr voru hluti af daglegu lífi en ég hefði aldrei haft hugmyndaflug í að setja ákvæði eins og þetta í stjórnarskrána, í mannréttindakaflann. Ég átta mig ekki alveg á hvernig það á að fara saman við almenna hugsun.

Það er hægt að fjalla í löngu máli um þær breytingar sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir leggur fram, en það er kannski efni í aðra ræðu vegna þess að hér er svo margt undir, svo margt sem þarf að koma fram. Ég óska eftir því, herra forseti, að vera þegar sett á mælendaskrá aftur og þegar ég hef lokið ræðu minni ætla ég að taka það sérstaklega í seinni ræðu minni í stað þess að eyða tíma mínum hér í það.

Nú er ein breytingartillaga sem ég á eftir að fjalla um, breytingartillaga frá hv. þingmönnum Oddnýju G. Harðardóttur, Álfheiði Ingadóttur, Árna Þór Sigurðssyni og Skúla Helgasyni. Hér er sett fram tillaga að auðlindaákvæði og það er rétt að það komi fram að allir flokkar hafa lýst því yfir að þeir telji rétt að setja ákvæði um þetta í stjórnarskrána. Það þýðir hins vegar ekki að menn samþykki bara þá útfærslu sem fram kemur af hálfu einhverra tilviljunarkenndra fjögurra þingmanna sem setjast saman niður, skrifa upp einhvern texta og skilja svo ekkert í því af hverju aðrir þingmenn samþykki þetta ekki, augljóslega, þar sem hér er komin fram tillaga að auðlindaákvæði. En þetta er ekki eina tillagan sem liggur fyrir. Það er önnur í breytingartillögunni frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur og svo skilst mér að framsóknarmenn hafi jafnframt á einhverjum tímapunkti fjallað um þetta málefni. Svo höfum við sjálfstæðismenn lýst því yfir í langan tíma að við séum tilbúin að setjast yfir það með fulltrúum annarra flokka að búa til slíkt ákvæði.

Hins vegar hefur ekki verið valin sú leið að setjast niður og reyna að sætta þessi sjónarmið, því miður, heldur sú leið að skella einhverju fram og skilja síðan ekkert í því að menn skuli ekki gleypa tillöguna hráa. Ég tel að miðað við það í hvaða málum við erum hér og hvar málið er statt akkúrat þessa stundina hljótum við að geta dregið þann lærdóm af þessu ferli og þeirri stöðu sem þetta mál er komið í hér í þinginu að fyrri aðferðin, gamla góða aðferðin við að setjast saman í rólegheitunum á yfirvegaðan hátt yfir stjórnarskrárbreytingar og velta upp hugmyndum sé vænlegri til árangurs.

Halda menn virkilega að það verði til góðs að knýja fram atkvæðagreiðslu um þessa breytingartillögu frá þessum fjórum hv. þingmönnum? Telja menn virkilega að það verði til góðs að sú breytingartillaga verði hugsanlega samþykkt með eins atkvæðis mun í þingsalnum? Telja menn virkilega að það sé gott að samþykkja þessa tillögu vitandi það að ekki sé sátt um hana? Telja menn að það sé gott í ljósi þess að menn vita að fram undan eru alþingiskosningar og að nýtt þing muni síðan taka afstöðu til þessarar breytingartillögu? Á meðan nýtt þing hefur ekki gert það ríkir stjórnskipuleg óvissa um hvort þetta ákvæði sé í gildi og verði í gildi í framtíðinni eða ekki. Telja menn virkilega að þetta sé góð aðferð? Ég tel það ekki. Ég tel að menn eigi frekar að fara gömlu góðu leiðina, leið sátta, setjast niður og reyna að finna sameiginlega útfærslu á því með hvaða hætti megi skrifa slíkt ákvæði inn í stjórnarskrá.

Frú forseti. Í meginatriðum vil ég segja um þetta frumvarp og síðan breytingartillöguna við það, sem felur í raun í sér allsherjarbreytingu á málinu, að ég tel farsælla að viðhafa áfram það verklag að það sé erfitt að breyta stjórnarskrá. Ég sé engin rök sem standa til þess að breyta út frá þeirri hugmyndafræði og þeirri íhaldssemi sem gildir og hefur gilt í stjórnskipunarrétti víðast hvar í lýðræðisríkjum þar sem eru skrifaðar stjórnarskrár sem felst í því að það á að vera erfitt að breyta stjórnarskrá. Breytingarákvæði hverrar stjórnarskrár er eitt mikilvægasta ákvæðið, ef ekki það almikilvægasta.

Ég tel að það fari betur á því að menn gefi sér tíma, setjist saman yfir efnislegar breytingar á efnislegum ákvæðum stjórnarskrárinnar en að menn fari á handahlaupum að samþykkja handahófskenndar tillögur sem lagðar eru fram á síðustu stundum þessa kjörtímabils. Ég tel það verklag ekki til fyrirmyndar og ég tel það sýna — vanvirðing er kannski aðeins of sterkt orð en það er eina orðið sem ég held að nái yfir það gagnvart stjórnarskránni okkar sem er í gildi og við hér höfum undirritað drengskapareið að.