141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er að sjálfsögðu margt sem þarf að hafa í huga og margt sem ber að varast þegar stjórnarskrá, grundvallarlögskýringargagni landsins er breytt og þarf eðlilega að gera kröfu um að vandað sé til verka. Í andsvari fyrr í dag benti hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson á ákveðna hluti í breytingartillögu hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur, Álfheiðar Ingadóttur, Árna Þórs Sigurðssonar og Skúla Helgasonar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.“

Með lögum má kveða á um. Þegar um svona ræðir þarf löggjafinn þá ekki að hafa skýrari fyrirmæli eða skýrari mynd af því hvað þeir sem semja slíka tillögu hafa í huga? Tiltekin dýpt undir yfirborði jarðar getur væntanlega verið nokkrir tugir sentimetra, metri eða hundruð metra. Hvað er nákvæmlega átt við með því? Ég spyr því þingmanninn hvort hún sé á þeirri skoðun að orðalagið dugi til dæmis til að skýra hvað og hvenær má kveða á um þjóðareign í lögum og hvort eðlilegt sé að leggja það í hendur löggjafans að ákveða hvort það eru 50 sentimetrar undir yfirborði jarðar eða 500 metrar. Það er eitt af því sem hefur verið bent á og það hefur verið bent á annað í þeirri tillögu en ég ætla að láta þetta duga í fyrra andsvari.