141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég missti af frammíkallinu sem hv. þingmaður nefndi. Það sem stendur nokkuð upp úr í viðbrögðum þingmanna við hugmyndum sem hafa komið fram í ræðum um eignarrétt og óbeinan eignarrétt er að einhver allverulegur misskilningur virðist vera á ferðinni um þau hugtök. Ef hv. þingmenn ætla sér að skilgreina mjólkurframleiðslu sem náttúruauðlind og þjóðareign verða þeir væntanlega að svara því hvort sá sem nyti þess réttar að framleiða mjólk nyti þá óbeins eignarréttar á þeim heimildum sem hann hefur til að framleiða mjólkina eða hvort viðkomandi nýtur, eftir kannski margra alda framleiðslu á mjólk á viðkomandi búi, ekki þó sami maður náttúrlega, einhvers konar annarra réttinda en óbeins eignarréttar.

Samlíkingin er nokkuð langsótt hjá hv. þingmanni sem kallaði fram í. Við hljótum hins vegar að þurfa að velta því fyrir okkur hvort þeir einstaklingar eða aðilar í íslensku samfélagi sem taka að sér að nýta auðlindir, t.d. heita vatnið, hafi leyfi til þess frá ríkisvaldinu, hvort þeir hafi ekki einhver réttindi meðan þeir fylgja reglum eða sjá um þá framleiðslu sem þeir hafa óskað eftir og lagt kostnað í. Við hljótum líka að spyrja okkur hvaða líkur eru á miklum framförum af hálfu einstaklinga ef óbeinn eignarréttur þeirra á einhvers konar nýtingu — ekki auðlindinni, ég tel að allir séu sammála um að enginn slíkur eignarréttur myndast á auðlind heldur fyrst og fremst nýtingarréttur, að hann sé varinn óbeinum eignarrétti. (Forseti hringir.) Þá hljótum við að velta fyrir okkur hversu djúpt hv. þingmenn sem flytja tillöguna ætla að fara undir yfirborð jarðar til að afnema þann rétt.