141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef haldið því fram og hélt því fram í ræðu minni að mér finnst að hv. þingmenn og sérstaklega hv. þingmenn Samfylkingarinnar, sem flytja þessa breytingartillögu sem snýr að auðlindaákvæði, hafi komið í bakið á formanni sínum og gert hann í raun og veru ótrúverðugan. Eins og hv. þingmaður upplýsir hafði hv. þm. Árni Páll Árnason sent einhvern texta sem hugsanlegan umræðugrundvöll um hvort menn næðu saman um málið.

Það dettur engum heilvita manni í hug að menn geti tekið umræðuna um auðlindaákvæði, eða hvaða annað ákvæði sem er, hér í þingsal úr ræðustól. Sú vinna verður að fara fram inni í nefndinni. Hún gerist ekki hér, það er algjörlega útilokað mál. Tortryggnin er sú að ekki er hægt að tryggja að milli 2. og 3. umr. komi ekki heilu breytingartillögurnar um að færa bara heilu bálkana inn til viðbótar. Það er ekkert sem getur tryggt að svo verði.

Ég er ekki að tala um að taka tillögurétt af þingmönnum en það verður að ná þessum trúnaði ef menn ætla að klára þetta mál eins og lagt er upp með. Ég sé enga samleið með þessu frumvarpi hér og breytingartillögunni, af því að hv. þingmaður spurði mig að því. Fram hefur komið í ræðum hv. þingmanna að þeir segja: Ja, við mundum frekar vilja hafa mannréttindakaflann eða einhvern annan kafla en þennan. Það eru bara mismunandi skoðanir á því.

Ég var töluvert ánægður með vinnuna hjá meiri hlutanum í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem sneri að umfjöllun um þetta mál. Ég set spurningar við til dæmis „greiddra atkvæða“, hvort það þurfi að vera lágmarksfjöldi þingmanna þannig að í raun og veru geti ekki verið mjög fáir þingmenn sem samþykki breytingar á stjórnarskránni. Það eru svona atriði sem ekkert vandamál er að leysa ef menn (Forseti hringir.) vilja ræða þau efnislega, en ekki einhver önnur atriði sem koma þessu frumvarpi að mínu viti nánast ekkert við.