141. löggjafarþing — 110. fundur,  25. mars 2013.

afbrigði um dagskrármál.

[13:32]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hyggst greiða atkvæði með þessum afbrigðum. Ég vil þó vekja athygli á því að hér er verið að koma inn í 3. umr. tveimur breytingartillögum í máli sem snýr að gjaldeyrishöftunum, gjaldeyrismálum, það er rýmkun heimilda, aukið eftirlit o.s.frv.

Ég verð að segja að ég hefði kosið, virðulegi forseti, að það hefði verið búið að ráðgast aðeins betur með þetta mál þannig að nefndarmenn okkar í þessari nefnd hefðu þekkt þessar tillögur og búið hefði verið að bera þær undir þá. Ég hef svolitlar áhyggjur af því að í jafnmikilvægu máli og þessu, sem er tæknilega um margt flókið mál, þá séum við að taka hér inn til 3. umr. um málið tvær breytingartillögur sem hafa ekki hlotið neina sérstaka umfjöllun. Í það minnsta eru sjálfstæðismenn í þessari nefnd að sjá þetta fyrst núna. Mér finnst þetta vont og ég vonast til þess að hægt verði að ræða saman hér þannig að tryggt sé að það sé sameiginlegur skilningur nákvæmlega á því hvað hér er á ferðinni, að menn séu búnir að fara yfir það þannig að málið klárist ekki út úr 3. umr. nema við séum öll sátt við það hvað nákvæmlega er verið að gera.