141. löggjafarþing — 110. fundur,  25. mars 2013.

röð mála á dagskrá.

[13:36]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það vekur athygli mína, þegar ég lít á þessa löngu og ágætu dagskrá með 48 dagskrárliðum, að þar er reiknað með að við göngum nú til umræðu, 3. umr., um sjö mál hér fyrst á dagskránni eftir að 3. málinu hefur verið frestað eða verið tekið út, en eitt þriðjuumræðumál, lög um opinber innkaup, meðferð kærumála, EES-reglur, mál 288, hefur verið sett í skammarkrókinn, það er nr. 39 á dagskránni.

Ég velti því fyrir mér, frú forseti, hverju það sæti. Það skyldi þó ekki vera að lítil tillaga frá þeirri sem hér stendur, sem er til þess ætluð að auðvelda Landspítalanum innkaup með systurstofnunum sínum í Noregi og á Norðurlöndunum í þeim tilgangi að lækka lyfjakostnað, sem er stærsti einstaki útgjaldaliðurinn í heilbrigðisþjónustunni okkar, eigi hér hlut að máli? Ef svo er, frú forseti, eða hv. þingmenn, væri forvitnilegt fyrir aðra þingmenn að fá að vita hver það er sem vill ekki að við göngum til 3. umr. um þetta mál hér og nú.