141. löggjafarþing — 110. fundur,  25. mars 2013.

búfjárhald.

282. mál
[13:42]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Varðandi búfjárhaldslögin, heildarlög, þá hafði hv. þingmaður fyrirvara, sem var almenns eðlis, á málinu þegar það kom í þingið. Fyrirvarinn laut að því að ekki hafi gefist nægilegur tími til að gaumgæfa þau tvö mál nógu vel sem þessu tengjast, annars vegar lög um búfjárhald og hins vegar lög um dýravelferð. Málið var komið mjög vel á veg í desember þegar atvinnuveganefnd sá að ekki yrði hægt að klára það fyrir jól og ákvað þess vegna að geyma það fram yfir áramót til að gefa sér nægilegan tíma til að fara yfir það.

Þannig háttaði hins vegar til í vinnu atvinnuveganefndar í janúar og febrúar að önnur mál voru tekin fram yfir í vinnu nefndarinnar og var það ekki fyrr en í kringum áætluð þinglok, 15. mars, að sest var yfir málið að nýju. Þá kom í ljós að það voru nokkrir ágallar á málinu, sérstaklega er snertu stjórnvaldsþvinganir og refsiákvæði, en einnig nokkur önnur álitamál. Þótt ég sé samþykkur báðum þessum málum, inntaki þeirra og þeim réttarbótum sem verða í málum er varða dýravelferð ásamt hinni nauðsynlegu viðbót, nýjum lögum um búfjárhald, það er í einum lagapakka í dag — gerði ég þann fyrirvara við málið að það gæti verið að eitthvað hefði farið fram hjá okkur vegna þess að við gáfum okkur einfaldlega ekki nægilegan tíma fyrir málið. Komið hefur á daginn að við höfum verið að leiðrétta tæknilegar útfærslur fyrst og fremst á milli 1. og 2. umr. og á milli 2. og 3. umr., bæði í dýravelferðarlögunum og í búfjárhaldslögunum. Nú, við 3. umr., eru þrjár tillögur sem sá sem hér stendur, sem er framsögumaður búfjárhaldslaganna, vill kynna til sögunnar. Þær breyta ekki á nokkurn hátt innihaldi eða markmiði laganna eða því hvernig unnið verður eftir lögunum, en þær skýra aftur á móti ákveðna hluti og bæta lögin. Það sýnir kannski að meiri hlutinn hefði átt að gefa málinu nægilegan tíma í febrúar í stað þess að eyða þeim tíma til að mynda í heildarlög um stjórn fiskveiða sem öllum mátti vera ljóst að mundi ekki nást að klára á þessu þingi. Í það fóru einar tvær, þrjár vikur.

Ég ætla í fyrsta lagi að kynna við þessa umræðu breytingartillögu við inngangsmálslið orðskýringaákvæðis 3. gr. frumvarpsins, hann er sem sagt ekki nægilega skýr. Nú er kominn staðlaður texti í lagatexta og ekki er getið um að orðskýringarnar eigi við í tilviki stjórnvaldsfyrirmæla sem sett kunna að verða á grundvelli frumvarpsins. Því er tekin inn setning sem er stöðluð setning í lögum og tekur á því að orðskýringarnar séu ekki bara um lögin heldur einnig reglugerðir sem og aðrar stjórnvaldsaðgerðir er lúta að lögunum. Þá sömu breytingu höfum við nú þegar gert á frumvarpi til laga um velferð dýra.

Síðan er í ákvæði 9. gr. ákvæði um lögveð. Það er ekki nægilega skýrt og því leggur framsögumaður til að lögveðsheimildin verði færð til nútímans og afmarkað nánar til hvaða kostnaðar henni er ætlað að ná. Það er hreinlega skýrt í lögunum til hvaða lögveða skuli ná, þurfi þess að taka.

Síðan var talsvert rætt við 2. umr. að koma inn saknæmisskilyrðum í refsiákvæðum og var einnig gefinn tími til umræðu um það í nefndinni vegna þess að það var stærsta breytingin á frumvarpinu nú á endasprettinum. Það hefur verið þannig að mál sem farið hafa fyrir dómstóla vegna búfjárhalds eða dýravelferðar hafa tapast oft og tíðum þrátt fyrir að öllum sé ljóst að þar hafi menn hugsanlega brotið lög eða í það minnsta ekki gert eins og menn ætla að gert sé. Engu að síður hefur bæði verið sýknað í málum fyrir dómstólum og málum vísað frá vegna formgalla. Ég benti á það fyrr í vetur að við þyrftum að skoða það. Ástæður þessa eru annars vegar stjórnvaldsþvingunaraðgerðir sem við verðum að setja í hendurnar á Matvælastofnun og öðrum opinberum stofnunum og hins vegar það hversu óskýr refsiákvæðin eru. Það er ekki nóg að vitna til þess að þau gildi bara almennt. Það á reyndar við um fjölmörg önnur lög sem við tökum á með stjórnvaldsaðgerðum, þvingunaraðgerðum og refsiákvæðum, nauðsynlegt er að inni í lagabálkinum séu skýrt skilgreind refsiákvæði þannig að skýrleiki ákærunnar sé mjög mikill, þ.e. að vitnað sé til lagatextans varðandi hvaða brot hefur átt sér stað og það standi í lagatexta um viðkomandi mál að þar sé um brot að ræða og svo hvernig fara eigi með það brot. Skýrleika er krafist í auknum mæli, við höfum fordæmi um það úr Hæstarétti.

Umræðan um þetta mál, m.a. hjá mörgum dýraverndunarsamtökum, Dýralæknafélagi Íslands, Matvælastofnun og jafnvel ráðuneytinu, var á þann veg að það vantaði þekkingu á dýrahaldi inn í dómstólana og þar af leiðandi væri ekki hægt að dæma brot samkvæmt laganna hljóðan þótt brotin virtust vera nokkuð augljós. En það er auðvitað ekki þannig. Það skortir skýrleika og þar sem við viljum að það sé þannig í dómskerfi okkar að enginn sé dæmdur til sektar nema sekt sé sönnuð þá hafa mörg slík mál tapast á formgöllum. Menn hafa ekki náð að fara rétt með málið eða þá að skýrleika skorti. Þess vegna settum við ákvæði með mjög stuttum fyrirvara inn í frumvarpið áður en við kláruðum málið þar sem saknæmisskilyrðin og sérrefsiákvæðin voru meðtalin.

Sú skoðun var uppi að í refsiákvæði frumvarpsins yrði að koma sérstaklega fram að aðeins væri ætlunin að refsa fyrir brot sem framin væru af ásetningi og er rétt að minna á að við erum að tala um búfjárhald, það er ekki í dýravelferðarlögum. Hér mundi ekki duga almennt gáleysi eða eitthvað slíkt, það væri of langt gengið að fara að refsa út af slíku í búfjárhaldslögunum. Rætt hefur verið um það í nefndinni að láta það ráðast af óskráðum meginreglum refsiréttar, en eftir því sem nefndin og framsögumaður hafa kynnt sér, í samstarfi við mjög góðan nefndarritara atvinnuveganefndar, sem ég vil þakka fyrir frábæra vinnu í þessum efnum, þá er skynsamlegra að fara aðra leið. Það leysir ekki vandann eins og reiknað hafði verið með. Því er lagt til að við refsiákvæði 14. gr. frumvarpsins verði bætt nýrri málsgrein.

Ég tel að frumvarpið verði við það betra, skýrara og vonandi laust við einhverja ágalla sem við hefðum annars þurft að lagfæra í næstu lotu. Sá almenni fyrirvari sem ég gerði stendur engu að síður þar sem mikilvægt er þegar við leggjum fram ný lög á nýju sviði og umbyltum þeim með ýmsum hætti vegna þess að við erum búin að gera margar breytingartillögur á þeim, ég tala ekki um á endasprettinum, að hægt sé að senda slík mál aftur út til umsagnar. Við þurfum nefnilega að fá álit sérfræðinga sem vinna á þessu sviði og þá ekki bara sérfræðinga innan ríkisstofnana eða Bændasamtakanna heldur líka ríkissaksóknara, lögregluna og aðra þá sem koma að slíkum málum. Það hjálpaði mjög mikið að fá álit frá fulltrúa sýslumannsins í Borgarnesi sem benti á þetta og síðar kom mjög góð umsögn frá ríkissaksóknara sem benti á sömu galla í frumvarpinu upphaflega sem nefndin hafði ekki komið auga á fyrr en á lokametrunum. Ég tel að með þessum breytingum sé þetta frumvarp, eins og frumvarp um dýravelferð, betra en áður og líklegra til að verða að góðum lögum sem við þurfum hugsanlega ekki að breyta strax á næsta þingi eins og verið hefur allt of algengt.

Með þeim orðum lýk ég máli mínu.