141. löggjafarþing — 110. fundur,  25. mars 2013.

velferð dýra.

283. mál
[14:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til að minna á í sambandi við þetta mál að við erum að ræða frumvarp um dýravelferð, ekki um búfjárhald. Þegar við erum að fjalla um dýravelferð þá finnst mér að löggjöfin eigi að taka mið af því markmiði fyrst og fremst en ekki atvinnuhagsmunum bænda til dæmis.

Hv. þingmaður talaði um áhyggjur bænda og beinlínis hagsmuni þeirra af því að þurfa ekki að standa í að deyfa grísi við geldingar og það er sjónarmið sem stangast í raun og veru á við meginmarkmið þessarar löggjafar sem snýst um dýravelferð. Í íslenskum lögum hefur ekki verið heimild til undanþágu frá því að kvelja ódeyfð dýr. Af hverju ættum við að fara að setja slíka undanþágu inn í nýja „metnaðarfulla“ dýravelferðarlöggjöf? Mér finnst þetta vera ákveðin prinsippspurning.

Dýralæknar hafa líka bent á að verkjastilling við geldingar sé gagnslaus, það dugi ekkert annað en deyfing. Þeir hafa líka bent á að lyfjageldingar eru vel framkvæmanleg aðgerð, mjög einföld og ódýr eins og bólusetning, eitthvað sem er löngu komið úr dýrinu áður en því er slátrað. Síðan er líka sú leið að gelda alls ekki og slátra dýrinu fyrr til að losna við þetta margumtalaða galtarbragð.

Evrópusambandið ákvað að banna geldingar ódeyfðra grísa frá 1. janúar 2012 og banna geldingar grísa með öllu frá og með árinu 2018. Mér finnst við þurfa svolítið að horfa líka í áttina til nágrannalanda okkar þar sem við eigum væntanlega, ef vel tekst til, okkar markaði. Ég hugsa að neytendur velti því líka fyrir sér hvernig farið er með dýr sem fólk á að leggja sér til munns.