141. löggjafarþing — 110. fundur,  25. mars 2013.

velferð dýra.

283. mál
[14:17]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér kemur á óvart ef hv. þingmaður heldur að tvenns konar sjónarmið séu uppi í þinginu, annars vegar þeir sem vilja dýravelferð og hins vegar þeir sem ekki vilja dýravelferð. Ég eyddi einmitt nokkrum orðum í það að reyna að útskýra að ég teldi að málið snerist ekki um það. Þetta væri fyrst og fremst spurning um hvernig við reyndum að ná þeim markmiðum um dýravelferð sem ég héldi að við flest og örugglega öll værum í sjálfu sér sammála um.

Auðvitað er það ekki þannig að við setjum eina löggjöf sem er ónæm fyrir einhverjum tilteknum sjónarmiðum og svo öfugt. Við setjum ekki lög um búfjárhald öðruvísi en að við séum líka með augun á því að þau lög tryggi dýravelferð og það er líka þannig með dýravelferð að við vitum að það mun með einhverjum hætti hafa snertiflöt við búfjárhaldið eins og það er tíðkað í landinu. Það breytir ekki því að við hljótum að hafa í þessu sambandi, eins og alltaf þegar við fjöllum um löggjöf sem snertir dýrahald, það meginsjónarmið að reyna að tryggja það að vel sé farið með dýr. Við fordæmum auðvitað öll dýraníð af hvaða tagi sem það er stundað.

Það sem ég benti einfaldlega á í þessu sambandi var að ég teldi að sýnt hafi verið fram á með býsna sannfærandi rökum að með því að innleiða þá reglu sem gert er ráð fyrir eftir 2. umr. frumvarpsins sé ekkert endilega verið að ganga lengra í því að koma til móts við dýravelferðarsjónarmið. Ég færði fyrir því rök sem komu meðal annars fram á fundum með svínabændum. Ég hafna því algjörlega að hér sé um að ræða einhver gagnstæð sjónarmið sem uppi séu varðandi hugmyndir manna um dýravelferð. Hér er bara um að ræða gagnstæð sjónarmið um hvernig við getum náð þeim markmiðum með skynsamlegum aðferðum sem munu duga.