141. löggjafarþing — 110. fundur,  25. mars 2013.

velferð dýra.

283. mál
[14:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvernig fær það staðist dýravelferð að gelda grís án deyfingar? Hvar mætir það dýravelferðarsjónarmiði? Er grísinn betur settur í lífi sínu og líðan ef hann er geltur en ógeltur? Að sjálfsögðu ekki. Það getur aldrei staðist dýravelferðarsjónarmið að gelda skepnu yfirleitt en við getum hins vegar fallist á að það kunni að vera nauðsynlegt. Við erum auðvitað að fallast á markaðs- og atvinnusjónarmið þegar við samþykkjum það að yfirleitt megi gelda dýr. En að fallast á að það sé gert án deyfingar, hvernig samræmist það dýravelferð? Mér þætti vænt um ef hv. þingmaður vildi svara því, ekki síst vegna meginmarkmiðs greinarinnar í frumvarpinu þar sem það er sagt í fyrsta skipti í löggjöf að dýr séu skyni gæddar verur.

Hefur hv. þingmaður einhvern tímann heyrt hljóðin í stungnum grís?