141. löggjafarþing — 110. fundur,  25. mars 2013.

velferð dýra.

283. mál
[14:23]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu, lítilli og stuttri, við þetta ágæta frumvarp sem ég tel því miður við þurfa á að halda, við ættum ekki að þurfa það því að markmið laganna og útfærsla er góð, en í ljósi sögunnar vil ég leggja tillöguna fram. Breytingin er við 29. gr. lagafrumvarpsins sem fjallar um aðbúnað dýra, en þar segir:

„Ráðherra setur í reglugerð nánari kröfur er lúta að aðbúnaði einstakra dýrategunda.“

Þar vil ég setja viðbót þannig að við bætist nýr málsliður, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Í reglugerðinni skal gætt samræmis við ákvæði 1.–3. mgr.“ — þ.e. 29. gr. — „og 1. og 6. gr.“

1. gr. er markmiðsgrein lagafrumvarpsins þar sem kemur einmitt fram að markmið laganna sé að stuðla að velferð dýra. Þetta eru nefnilega lög um velferð dýra. Þetta eru ekki lög um nýtingu dýra eða lög um hvernig hagræða megi í landbúnaði eða kannski því sem frekar mætti kalla iðnaðarframleiðslu á dýrum til manneldis heldur um vernd eða velferð dýra.

6. gr. fjallar almennt um meðferð dýra. Öllum sé skylt að fara vel með dýr og umráðamaður beri ábyrgð á að annast sé um þau í samræmi við lögin og að ill meðferð dýra sé óheimil.

Ég tel rétt að leggja þessa breytingartillögu fram til þess að árétta þau sjónarmið að reglugerð hjá ráðherra getur ekki farið í bága við þessar greinar og markmið laganna.