141. löggjafarþing — 110. fundur,  25. mars 2013.

velferð dýra.

283. mál
[14:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að þegar sett er löggjöf um dýravelferð þá er það velferð dýra sem er undirliggjandi. 1. gr. frumvarpsins, sem er markmiðsgreinin, á að vera sú grein sem allar aðrar greinar eru túlkaðar út frá. Þess vegna hef ég svolitlar áhyggjur af því að ef við tökum upp það fordæmi þegar kveðið er á um það í lögum að sett skuli reglugerð með vísan til samræmis við sérstakar greinar, að það kunni að opna á eitthvert sjúsk í túlkun laga. Af því að það er auðvitað og á að vera ófrávíkjanleg krafa að reglugerðir eigi sér alltaf stoð í lögum og séu fullkomin hlýðni og virðing við lagabókstafinn.

Það er það eina sem truflar mig í rauninni við þessar breytingartillögur þingmannsins, sem ég veit þó að eru settar fram af góðum hug og að gefnum tilefnum því að stundum finnst manni reglugerðarákvæðin ekki alveg í anda laga, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Það er þetta sem ég hef áhyggjur af.