141. löggjafarþing — 110. fundur,  25. mars 2013.

lokafjárlög 2011.

271. mál
[14:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum hér í lokaumræðu um lokafjárlög fyrir árið 2011 og ég ætlaði í ræðu minni að hnykkja á einstaka atriðum. Í fyrsta lagi vil ég segja að við meðferð frumvarpsins í hv. fjárlaganefnd var mikil samstaða og sátt innan nefndarinnar allrar. Það var gerð breyting á því hvernig þetta mál var unnið og sú vinna byrjaði í rauninni fyrir lokafjárlög ársins 2010. Vinnan hefur þróast, ef ég má nota það orð, í þá veru að farið er yfir þau atriði þar sem meira en 10% af fjárheimildum eru flutt á milli ára og eins er leitað skýringa á þeim fjárheimildum sem eru felldar niður í lokafjárlögum. Það sem ég vildi segja er að þó svo að nefndin hafi unnið þetta svona og stoppað við þessi atriði er auðvitað ekki þar með sagt að eitthvað annað sé ekki jafnmikilvægt eða jafnvel mikilvægara. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að þeirri vinnu sem hafin er í nefndinni verði fram haldið á næsta kjörtímabili.

Þetta er líka töluverð áminning um það sem snýr að svokölluðum mörkuðum tekjum sem ég hef oft vakið athygli á hér. Í fjárlögunum eru um 100 milljarðar kr. í mörkuðum tekjum og má í raun og veru segja að þetta skerði fjárstjórnarvald Alþingis eins og stundum hefur verið sagt. Með þessu frumvarpi, verði það að lögum sem allt bendir nú til, er verið að samþykkja 900 milljón kr. fjárútlát umfram það sem var gert í fjárlögum og fjáraukalögum fyrir árið 2011. Núna er þingið að heimila að þessum 900 milljónum kr. sé ráðstafað. Það sjá auðvitað allir sem vilja að það er óviðunandi staða að taka ákvörðun í mars 2013 um þær fjárveitingar sem átti að nýta árið 2011. Þessar staðreyndar eru ítrekun um hversu mikilvægt það er að taka markaðar tekjur í meiri mæli út úr fjárlögunum og helst alveg. Vinna í þá átt hefur farið fram í hv. fjárlaganefnd í góðu samstarfi við fjármálaráðuneytið og hæstv. ráðherra, hver sem hann hefur verið á öllu þessu kjörtímabili. Það er mikilvægt að koma hinum svokölluðu mörkuðum tekjum út úr fjárlögum að eins miklu leyti og unnt er. Þær skerða í raun og veru fjárstjórnarvald Alþingis.

Síðast en ekki síst er auðvitað mjög sérkennilegt að vera að samþykkja núna lokafjárlög fyrir árið 2011 í mars 2013. Það er kannski rétt að vekja athygli á því að sennilega hefur þetta nú ekki verið fyrr á ferðinni í mörg, mörg ár, jafnvel áratugi. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þegar búið er að samþykkja lokafjárlög fyrir 2011 liggur fyrir upphafsstaða viðkomandi stofnana inn á árið 2012. Það segir sig sjálft hversu mikilvægt það er. Ef við værum að reka fyrirtæki mundi þetta auðvitað ekki ganga upp.

Síðan vil ég vekja athygli á tveimur hlutum í það minnsta sem renna stoðum undir það, sem hefur margoft komið fram í umsögnum og í skýrslum Ríkisendurskoðunar, að lokafjárlög voru í raun farin að virka sem eins konar fjáraukalög eða aukafjáraukalög, það gefur augaleið. Ég ætla að vekja fyrst athygli á einu atriði sem snýr að því að haldin var heimssýning árið 2011 í Shanghai í Kína. Þegar lagt er af stað upp í þá vegferð er gert ráð fyrir því í kostnaðaráætlun, sem var unnin árið 2008, að þátttökukostnaðurinn nemi um 620 milljónum kr. Síðan er það endurskoðað í kjölfar hrunsins 2008 og gert ráð fyrir því að þátttaka í heimssýningunni muni kosta um 280 milljónir kr. Fjárveitingarnar sem Alþingi samþykkir að ráðstafa í þennan viðburð eru um 263 milljónir kr.

Síðan er hér í lokafjárlögum fyrir árið 2011 verið að fella niður 47 milljón kr. halla á þessu verkefni. Það segir sig auðvitað sjálft, eða það er að minnsta kosti mín persónulega skoðun, að það hefði verið nær, skynsamlegra og eðlilegra að sótt hefði verið um þessa heimild í fjáraukalögum fyrir árið 2011 frekar en að gera það í gegnum lokafjárlög. Í fyrsta lagi er mun ítarlegri umræða um fjáraukalög en lokafjárlög, um þau hefur umræðan verið lítil eða nánast engin. Þetta er bara þingskjalið með ríkisreikningi sem fer hér nánast umræðulaust í gegnum þingið. Það var ekki fyrr en í fyrra og hittiðfyrra sem smáumræða byrjaði og ég held að örfáir þingmenn hafi tekið þátt í umræðunni um lokafjárlög nú.

Hér er sem sagt liður sem er 47 milljónir kr. fjárveiting sem er halli á viðkomandi verkefni og er felldur niður. Þá er rétt að setja það í samhengi við að fjárveiting Alþingis til verkefnisins, til þessarar sýningar í Kína, var upp á 262 milljónir kr. Hér er verið að fella niður um 47 milljónir kr., sem er auðvitað hátt hlutfall miðað við heildarkostnaðinn sem var samþykktur af Alþingi.

Það segir sig sjálft að það hefði verið miklu nær að þetta kæmi inn í fjáraukalögin þannig að hér yrði eðlileg umræða í kringum þetta og menn hefðu kynnt sér málið betur. Þess vegna vil ég hvetja alla hv. þingmenn til að lesa nefndarálitið frá hv. fjárlaganefnd mjög vandlega.

Þá kemur að eftirlitsþætti þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er tekin ákvörðun á Alþingi með fjárveitingum um að fara í þennan viðburð. Síðan þarf nefndin og þingið að fylgjast með framkvæmdarvaldinu um það hvernig til tekst. Þess vegna vil ég vekja sérstaka athygli á því að hér tel ég að hv. fjárlaganefnd sé að sinna sínu eftirlitshlutverki með því að gera athugasemdir og málinu er ekki lokið af hálfu nefndarinnar. Þess vegna er mikilvægt að sú nefnd sem tekur við í vor fylgi þessu verki eftir, því að niðurstaða fjárlaganefndar er alveg einróma, það standa allir hv. nefndarmenn að henni. Nefndin óskar eftir því að þegar uppgjörinu er lokið verði því skilað inn til nefndarinnar. Þá er hægt að fara yfir það hvað það var sem hugsanlega brást og hvers vegna þetta er gert svona. Þess vegna er mikilvægt að þetta verk verði klárað. Þetta er klárt dæmi um það hvernig farið er að ganga um lokafjárlög. Það hefur verið gagnrýnt að þau eru farin að virka sem eins konar fjáraukalög, sem þau eiga alls ekki að gera, alls ekki.

Ég ætla líka að vekja athygli á öðru máli sem er í farvatninu. Þetta nefndarálit er ekki hefðbundið að því leyti að við setjum fram þær spurningar sem við óskuðum eftir svörum við til ráðuneytanna og birtum síðan bæði spurningarnar og svörin, líka þar sem nefndin er bara tiltölulega sátt og gerir ekki frekari athugasemdir við þau svör sem hún hefur fengið frá ráðuneytinu. Við birtum þau svör líka, þ.e. við stöldrum ekki einungis við það sem við viljum skoða frekar heldur kemur það líka fram í nefndarálitinu þegar við teljum að nefndin hafi fengið fullnægjandi skýringar og svör við ákveðnum hlutum. Það er því mjög einfalt fyrir hv. þingmenn að setja sig inn í málin og ég hvet auðvitað alla til þess að gera það og lesa álitið.

Það sem er líka í farvatninu og er kannski umhugsunarvert fyrir þingið er mál sem lítur út fyrir að verði sams konar og það sem ég lýsti hér áðan um heimssýninguna, þ.e. að kostnaðurinn fer fram úr heimildum þingsins og hallinn er síðan felldur niður í lokafjárlögum, sem er mjög sérstakt. Það er tekin ákvörðun um að taka þátt í svokallaðri bókakaupstefnu í Frankfurt árið 2011 og gert ráð fyrir ákveðnum fjárveitingum í það. Síðan í lok ársins 2011, þegar sýningin eða kaupstefnan er búin, er 105 milljón kr. halli á verkefninu. Það sem er kannski dálítið merkilegt í svörunum frá ráðuneytinu og ég ætla að vekja athygli á er að í fjárlögum ársins 2013 er gert ráð fyrir 25 milljón kr. fjárveitingu sem á að ganga upp í þann halla sem hér um ræðir. Samt gerir ráðuneytið ráð fyrir því að hallinn á þessari einu bókakaupstefnu í Frankfurt verði í það minnsta 60 milljónir kr.

Þannig að hér erum við með tvö mál, annað snýr að heimssýningunni í Kína og hitt að bókakaupstefnunni í Frankfurt, sem fara samtals rúmar 100 milljónir kr. fram úr í framkvæmdinni hjá framkvæmdarvaldinu miðað við það sem þingið gaf samþykki fyrir. Það er mjög mikilvægt að menn fari vandlega yfir þessa hluti. Það er ekki hægt að láta það gerast að framkvæmdarvaldið haldi ekki nægilega vel utan um málin. Við í nefndinni höfum óskað eftir útskýringum á þessu. Mér finnst reyndar útskýringar sem liggja fyrir núna vera heldur fátæklegar vegna þess að í svörum ráðuneytisins kemur fram varðandi þennan 60 milljón kr. halla á kaupstefnunni að tvennt skýri hann að mestu leyti. Ég ætla að vitna orðrétt í svarið, með leyfi forseta:

„Helstu ástæður eru þær að breytingar hafa orðið á skattalögum í Þýskalandi sem lækka endurgreiðslur á virðisaukaskatti um 4 millj. kr., auk þess sem 3,3 millj. kr. styrkveiting brást. Þá hefur gengisþróun verði óhagstæð.“

Að þessar 7 milljónir kr. skýri að langstærstum hluta 60 milljón kr. halla sem er á verkefninu finnst mér nú vera frekar þunnt, ég verð að viðurkenna það. Og mig grunar að það verði þannig, ég ætla þó ekki að fullyrða neitt um það, að í lokafjárlögum ársins 2013 komi inn þessar 60 milljónir kr. eða jafnvel meira, til að gera upp þetta verkefni. Ég tel mikilvægt að fjárlaganefnd stígi skrefi lengra til að ekki verði heimilt að gera svona hluti eins og ég hef hér rakið um þessa heimssýningu, það verði ekki heimilt að gera þetta í gegnum lokafjárlög heldur verði að sækja um aukafjárveitingu á fjáraukalögum og málið fái þar með þá umræðu sem nauðsynleg er.

Það má ekki vera þannig að framkvæmdarvaldið á hverjum tíma líti svo á að fari það fram úr ákveðnum verkefnum, eins og í þessu tilfelli tveimur sýningum upp á um 110 milljónir kr., sé sjálfgefið að koma með slíka hluti í lokafjárlög og þar af leiðandi sé verkefnið búið. Það er mikilvægt upp á eftirlitshlutverk þingsins að það gerist ekki þannig.

Yfirferðin í nefndinni hefur líka gert það að verkum, og ég ítreka, virðulegi forseti, að enginn pólitískur ágreiningur er um það og nefndin vinnur mjög samhent að þessum málum þvert á flokka, að hér er lögð fram breytingartillaga við lokafjárlög 2011. Mér er tjáð að það hafi ekki gerst mjög oft og jafnvel mjög sjaldan, án þess að ég ætla að fullyrða nokkuð um það. Í henni er gert ráð fyrir því að fimm fjárlagaliðir séu felldir niður núna á árinu 2013 sem er í raun og veru niðurstaða ársins 2011. Það er kannski það merkilega við þetta.

Þetta fór nefndin í gegnum og er gert í samráði við ráðuneytin. Við höfðum reyndar uppi hugmyndir um að fella niður enn fleiri liði en við féllumst á þau rök sem viðkomandi ráðuneyti setti fram. Nefndin leggur til að fella niður um 222 milljónir kr., sem færast þá ekki inn á árið 2012 og þar af leiðandi ekki áfram inn á árið 2013. Þessu hefur þó vinna nefndarinnar skilað, þarna er verið að fylgjast með og taka til sem er auðvitað mikilvægur þáttur í eftirlitshlutverki þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Ég vil segja í lok þessarar umræðu að ég vænti þess og vonast til að sú fjárlaganefnd sem tekur við núna í vor muni halda áfram á þeirri vegferð sem hv. fjárlaganefnd hefur verið á og vinni áfram með þeim hætti að við getum bætt hér vinnubrögð, stuðlað að betra eftirliti við framkvæmd fjárlaga, sem er auðvitað skylda þeirra sem sitja í hv. fjárlaganefnd, og geti þá flutt þinginu svona skýrslu eða nefndarálit sem kemur öllum hv. þingmönnum til góða. Það er mjög gott að glöggva sig á þessu nefndaráliti.