141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

gjaldeyrismál.

669. mál
[16:06]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tveimur breytingartillögum á þskj. 1302, mál 669, og á þskj. 1329, mál 669. Þessar breytingartillögur hafa verið ræddar í efnahags- og viðskiptanefnd og sátt ríkir um þessa niðurstöðu.

Fyrri tillagan er breytingartillaga við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum (rýmkun heimilda, aukið eftirlit, hækkun sekta o.fl.) og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í stað orðanna „og aðilaskipti að slíkum kröfuréttindum“ í f-lið 6. gr. komi: m.a. breytingar á greiðslu afborgana höfuðstóls og vaxta, breytingar á gjalddögum og/eða breytingar vegna aðilaskipta að slíkum kröfuréttindum.“

Greinargerðin er svohljóðandi:

„Breytingin er til áréttingar á því að ákvæðið tekur til samningssambands lántaka og lánveitanda en ekki aðilaskipta, til dæmis þegar um viðskipti með framseljanleg skuldabréf á skipulegum verðbréfamarkaði er að ræða, sem kunna að verða á kröfum án þess að um skilmálabreytingar sé að ræða.“

Síðari tillagan er breytingartillaga við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum, og er frá Magnúsi Orra Schram. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í stað orðanna „skilyrði 1.–3. töluliðs 3. mgr.“ í k-lið 1. gr. komi: skilyrði 1.–4. töluliðs 3. mgr.“

Fyrri breytingartillagan var frá hv. þm. Helga Hjörvar.