141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

gjaldeyrismál.

669. mál
[16:10]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég ætla að samþykkja þetta frumvarp enda felur það í sér að létta á hluta af gjaldeyrishöftunum eða fjármagnshöftunum. Ég vil jafnframt geta þess að um helgina voru sett á fjármagnshöft í evrulandinu Kýpur og jafnframt voru mjög þungar byrðar lagðar á kýpversku þjóðina enda er um að ræða smáríki innan ESB. Ásakanir hafa heyrst um það að Kýpur hafi verið látið taka á sig óeðlilega þungar byrðar þegar þríeykið AGS, Evrópusambandið og Evrópski seðlabankinn neyddu meðal annars kýpverska bankakerfið til að taka á sig helmingslækkun á verðmæti grískra ríkisskuldabréfa.

Frú forseti. ESB leggur þungar byrðar á smáríki evrulandsins. Höfum það í huga.