141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

velferð dýra.

283. mál
[16:15]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum nú atkvæði um heildarlög um velferð dýra. Ég fagna því að þau eru komin hingað til afgreiðslu og að vel hefur tekist til við vinnslu málsins í meðförum nefndarinnar. Ég þakka nefndinni mikið og gott starf. Sá sem hér stendur var með almenna fyrirvara við nefndarálit í nefndinni sem stafa af því að við hefðum betur gefið okkur nægan tíma í janúar og febrúar til að fara yfir einstök mál. Komið hafa fram breytingartillögur bæði við 2. umr. og 3. umr. sem tengjast þessu máli og enn koma fram breytingartillögur. Við framsóknarmenn munum sitja hjá við þær breytingartillögur. Við teljum mikilsvert að ná þeirri samstöðu sem náðst hefur í nefndinni um niðurstöðu málsins í heild sinni og fögnum því að lög um dýravelferð nái framgöngu á þinginu. Ég held að það sé til heilla fyrir land og þjóð.