141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

velferð dýra.

283. mál
[16:17]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það og fagna því að þessi löggjöf er komin til lokaafgreiðslu. Málið hefur átt sér býsna langa forsögu og hefur hér að mínu mati verið vel vandað til verka. Í undirbúningi frumvarpsins sjálfs hefur verið reynt að leita mjög víðtæks samráðs. Við gerð heildarlaga koma upp mjög mörg álitamál sem kann oft og tíðum að vera erfitt að skera úr um og við undirbúning málsins var greinilega reynt að leita leiða til að skapa sem mesta og víðtækasta samstöðu um þessi mál. Málið var að mínu mati vel unnið í hv. atvinnuveganefnd en þó tek ég undir með hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni um að við hefðum gjarnan kosið að hafa haft betri tíma og að nefndin hefði lagt megináherslu á að sinna málinu í janúar og febrúar til að lenda ekki í því sem við lentum í á síðustu stundu að bregðast þurfti við með ýmsum hætti.

Engu að síður tel ég að málið sé orðið vel tækt til afgreiðslu (Forseti hringir.) og til þess fallið að skapa samstöðu um þennan mikilvæga málaflokk.