141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

velferð dýra.

283. mál
[16:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Við leggjum fram tillögu sem kveður einmitt á um þá niðurstöðu sem ráðuneytið komst að við vinnu sína í málinu og ætti okkar mati að geta leitt til sátta. Það er þannig að verið er að leita leiða til að leysa geldingamál grísa með öðrum hætti til lengri tíma litið. Við horfum til samkeppnislanda okkar, sem við flytjum m.a. inn svínakjöt frá, sem nota sömu aðferð og hér er notuð. Við getum reyndar bent á Noreg þar sem grísir eru deyfðir, en þá er það líka gert með þátttöku ríkisins í öllum þeim mikla kostnaði sem því er samfara.

Verið er að þróa leiðir og við teljum að ekki sé tímabært að ganga svo langt sem raun ber vitni hér og nú að við eigum ekki að fara lengra en þær þjóðir sem við leyfum innflutning á þessu sama kjöti frá. Ég held að það geti skekkt stöðuna. (Forseti hringir.) Það mun geta hitt neytendur fyrir með hærra verðlagi á afurðum frá íslenskum svínabúum og skekkt þannig samkeppnisstöðu þeirra gagnvart innflutningi á þessum afurðum.