141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

velferð dýra.

283. mál
[16:23]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Til að taka af öll tvímæli er það þannig að í frumvarpinu og einnig í þeirri breytingartillögu sem kemur mögulega til afgreiðslu á eftir, er gert er ráð fyrir því að gildruveiði á mink verði heimil, en þá sem hluti af skipulögðum aðgerðum. Það er að mínu mati of takmarkandi þáttur. Heimildir til gildruveiði á mink eiga einfaldlega að vera almennar heimildir sem þó eru tilkynningarskyldar til sveitarfélags, út á það gengur tillaga okkar. Minkurinn er auðvitað rándýr og meindýr í íslenskri náttúru. (BJJ: Rétt.) [Hlátur í þingsal.] Hann hefur valdið hér miklu tjóni og þess vegna er ástæða til þess að beita aðferðum sem gefist hafa vel og vísindamenn hafa sýnt fram á að verið hafa árangursríkar í því að reyna að stemma stigu við aukningu minkastofnsins í landinu.

Við eigum ekki að hika við að bregðast við varðandi þennan vágest í íslenskri náttúru. Það er mjög sérkennilegt ef það verður þannig að Alþingi vill ekki beita öllum brögðum (Forseti hringir.) sem viðurkennd eru til að eyða minknum. En tillaga okkar gengur út á það að nýta aðferð (Forseti hringir.) sem er vísindalega þekkt og vísindamenn hafa farið yfir. Hún hefur skilað árangri og mun þess vegna hafa mikið um það að segja hvort um frekari vöxt verður að ræða í þessum (Forseti hringir.) meindýrastofni í íslenskri náttúru.