141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

lokafjárlög 2011.

271. mál
[16:33]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við í Hreyfingunni og ég sem nefndarmaður í fjárlaganefnd hef talað gegn öðruvísi nálgun í fjárlögum ríkisins á því kjörtímabili sem nú er að verða lokið. Ég hef talað gegn þeirri leið sem kölluð hefur verið blandaða leiðin, þ.e. að menn nái að vinna sig út úr þessum skuldavanda með niðurskurði og skattahækkunum.

Það er staðfest nú í lok kjörtímabilsins að sú leið hefur beðið skipbrot og hefur ekki gengið upp og mun ekki ganga upp. Hún hefur valdið stórskaða í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og samgöngumálum úti um allt land. Það er óskandi að þeir sem taka við á næsta kjörtímabili noti aðra nálgun og viðurkenni það einfaldlega strax í upphafi að skuldastaða ríkissjóðs er ósjálfbær og það verður ekki hægt að vinna á henni með öðrum aðferðum en afskriftum. Það er viðtekin venja þegar þjóðir lenda í slíkum hremmingum og Íslendingar eiga ekki að vera feimnir við að fara þá leið.