141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

almenn hegningarlög.

478. mál
[16:39]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er mikilvæg lagasetning sem við erum að fara í gegnum núna. Við erum að tryggja að tekið verði á kynferðisbrotum gegn börnum með eðlilegum hætti í lagasetningunni. Dómaframkvæmd hefur verið ágæt en nú erum við að uppfæra lögin til dómaframkvæmdar. Mikil þverpólitísk samstaða hefur verið um þessi mál í allsherjar- og menntamálanefnd og við munum skila af okkur tillögum um hvað sé til úrbóta af því að gríðarleg aukning hefur orðið í tilkynningum á kynferðisbrotum gegn börnum til lögreglu upp á síðkastið. Í janúar komu um 42 mál inn en að meðaltali hafa þetta verið um 10 til 12 mál á síðustu árum þannig að það er ótrúlegur fjöldi mála sem er að koma hingað inn til lögregluyfirvalda og mjög brýnt að tekið verði á þessum kúf sem nú hefur myndast. Það þarf að auka fjárveitingar og ég er sannfærð um að Alþingi mun taka höndum saman um það mál líka.